Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna Covid-19 tóku gildi á miðnætti.

Tíu manna samkomubann er enn í gildi á landinu öllu en landsmenn komast nú í sund og verslanir mega hleypa inn fimm manns fyrir hverja tíu fermetra, að hámarki 100 manns í einu og 50 manns mega koma saman í útförum.

Sundlaugar opnuðu á ný í morgun eftir rúmlega tveggja mánaða lokun. Heimilt er að hleypa allt að 50% af hámarksfjölda gesta ofan í. Sundlaugar í Reykjavík opnuðu klukkan 6:30 í morgun en margir voru mættir á slaginu í Vesturbæjarlaugina, þó var engin röð og allt gekk vel fyrir sig. Gestir voru almennt ánægðir að komst í sund og óskaðu hvort öðru til hamingju með daginn.

Verslanir mega nú hleypa inn fimm manns fyrir hverja tíu fermetra, að hámarki 100 manns í einu. Eitthvað minna verður því um raðir í jólaversluninni næstu vikur og stórverslunin IKEA opnar dyr sína aftur.

Veitingastaðir fá að taka á móti 15 viðskiptavinum í rými og er heimilt að hafa opið til klukkan 22:00 á kvöldin. Staðirnir mega þó ekki taka á móti nýjum viðskiptavinum eftir klukkan 21:00.

Sviðslistir verða heimilar með allt að 30 manns á sviði og gildir það bæði um æfingar og sýningar. Heimilt verður að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum og þeim skylt að nota grímu og allt að 100 börnum fæddum 2005 og síðar. Hvorki hlé né áfengissala heimil. Þjóðleikhúsið hefur skólasýningar á tveimur verkum í dag en boðið verður upp á leiksýningar fyrir börn fyrir jól.

Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum eru einnig heimilar en æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar. Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.

Þá mega fimmtíu manns koma saman við jarðarfarir.

Ný reglugerð gildir til 12. janúar næstkomandi en um er að ræða lengri gildistíma en á flestum öðrum reglugerðum sem hafa verið gefnar út.