„Skýrari kröfur verða gerðar um skil­yrði fyrir heima­sótt­kví varðandi hús­næði og um­gengnis­reglur. Þeir sem ekki geta verið í heima­sótt­kví sem upp­fyllir sett skil­yrði þurfa að fara í sótt­varna­hús en ekkert gjald verður tekið fyrir dvölina.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í reglu­gerð Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra sem tekur gildi á morgun og byggist hún á til­lögum Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis. Er mark­miðið nú sem fyrr að lág­marka líkur þess að smit berist inn í landið með þeim að­gerðum sem sótt­varna­lög heimila.

Mikill styr hefur staðið um reglu­gerðina sem tók gildi þann 1. apríl síðast­liðinn og skikkaði þá sem koma frá há­á­hættu­svæðum til að fara í sótt­kví í sótt­varna­húsi. Með reglu­gerðinni sem tekur gildi á morgun er reglu­gerðin frá 1. apríl felld úr gildi og þar með á­kvæði um skyldu ein­stak­linga af há­á­hættu­svæðum til að dvelja í sótt­kví í sótt­varna­húsi sem héraðs­dómur úr­skurðaði að ekki væri laga­stoð fyrir.

Þór­ólfur segir í minnis­blaði til Svan­dísar að ó­full­nægjandi fylgni við reglur um heima­sótt­kví þeirra sem koma til landsins sé ein helsta ógn við nú­verandi smit­varnir á landa­mærum. Veru­leg hætta sé á að smit berist inn í landið nema gripið verði til frekari að­gerða á landa­mærunum. Bendir hann á að um­fang bólu­setningar sé ekki orðið nægi­legt hér á landi til að koma í veg fyrir út­breiddan far­aldur, víðast er­lendis sé far­aldurinn í mikilli út­breiðslu sem auki hættuna á að smit berist til landsins.

Þá bendir hann á að ný og meira smitandi af­brigði veirunnar séu orðin alls­ráðandi í ná­lægum löndum sem virðist valda al­var­legri veikindum í yngri aldurs­hópum. Loks ríki ó­vissa um hvort þau geti valdið endur­sýkingum og hve mikla vernd þau bólu­efni sem nú eru í notkun veiti gegn þeim.

Helstu reglur um sótt­kví og sýna­töku á landa­mærum frá og með 9. apríl

Sömu reglur gilda um alla far­þega, óháð því hvaðan þeir koma: Sótt­varna­að­gerðir á landa­mærum taka jafnt til allra, óháð því hvort þeir koma frá löndum sem skil­greind eru sem á­hættu­svæði eða ekki.

Sýna­taka og sótt­kví: Öllum sem koma til landsins verður sem fyrr skylt að fara í sýna­töku á landa­mærunum, fimm daga sótt­kví og aðra sýna­töku við lok hennar (sjá þó nánar um börn hér að neðan og sýna­töku hjá ein­stak­lingum með vott­orð). Fólki er heimilt að vera í heima­sótt­kví að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum. Þeir sem hafa ekki tök á að vera í heima­sótt­kví og/eða kjósa frekar að dvelja í sótt­varna­húsi eiga kost á því og er dvölin þar við­komandi að kostnaðar­lausu.

Kröfur til heima­sótt­kvíar: Þeir sem eru í sótt­kví þurfa að vera í hús­næði sem upp­fyllir skil­yrði og um­gengnis­reglur sam­kvæmt nýjum leið­beiningum sótt­varna­læknis. Í því felst að ein­stak­lingur skuli vera einn á dvalar­stað en ef fleiri dveljast þar þurfa þeir að sæta öllum sömu skil­yrðum sótt­kvíar. Þeir sem ekki geta dvalið í heima­sótt­kví sem upp­fyllir skil­yrði sótt­varna­læknis þurfa að dvelja í sótt­varna­húsi.

Brot á heima­sótt­kví: Gerist ein­stak­lingur upp­vís að því að brjóta heima­sótt­kví getur sótt­varna­læknir á­kveðið að hann skuli ljúka sótt­kví í sótt­varna­húsi.

Sótt­varna­hús: Þeir sem ekki hafa tök á að vera í heima­sótt­kví og/eða kjósa frekar að dvelja í sótt­varna­húsi eiga kost á því. Dvölin er við­komandi að kostnaðar­lausu. Þeim sem dvelja í sótt­varna­húsi verður gert kleift að njóta úti­veru og sér­stakt til­lit verður tekið til barna, s.s. varðandi úti­veru og annan að­búnað.

Sýna­taka og sótt­kví barna: Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýna­töku á landa­mærunum. Ferðist barn með ein­stak­lingi sem skylt er að sæta sótt­kví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sótt­kví ef síðara sýni úr sam­ferða­manni er nei­kvætt. Ef sam­ferða­maðurinn er undan­þeginn sótt­kví er barnið það sömu­leiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sótt­kví.

Sýna­taka hjá ein­stak­lingum með vott­orð: Krafa um sýna­töku hjá ein­stak­lingum með bólu­setningar­vott­orð eða vott­orð um fyrri sýkingu er sett vegna vís­bendinga um að þessir ein­staklingar geti borið smit. Þeir þurfa ekki að sæta sótt­kví en skulu bíða niður­stöðu úr sýna­töku á dvalar­stað. Krafan er tíma­bundin og verður endur­skoðuð fyrir 1. maí.

Aukið eftir­lit og hærri sektir: Sótt­varna­læknir leggur til að eftir­lit með ein­stak­lingum í heima­sótt­kví verði aukið í sam­vinnu við al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra og jafn­framt að sektir fyrir brot á sótt­kví verði hækkuð til muna. Heil­brigðis­ráð­herra hefur komið til­lögum sótt­varna­læknis varðandi þetta á fram­færi við ríkis­sak­sóknara og ríkis­lög­reglu­stjóra.