Bresk yfir­völd hafa greint frá nýjum refsi­að­gerðum gegn fjöl­skyldu og innsta hring Vla­dimír Pútíns, for­seta Rúss­lands. Meðal þeirra sem verða fyrir að­gerðunum er fyrr­verandi eigin­kona Pútíns.

Utan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, Liz Truss, segir að­gerðirnar beindar að „tor­tryggi­legu kerfi sem við­heldur lúxus­líf­stíl Pútíns“.

Lyu­dmila Ocher­etna­ya, fyrr­verandi for­seta­frú Rússlands, er meðal þeirra tólf sem að­gerðirnar beinast að í þetta skiptið. Rúss­neski fyrir­tækja­eig­andinn og frændi Pútíns, Mik­hail Shelomov, er einnig á listanum.

Annað frænd­fólk Pútíns sem eru í hátt­settum em­bættum innan rúss­neskra fyrir­tækja er einnig á listanum og þurfa að sæta ferða­banni og frystingu eigna.

Vinir og fjölskylda halda Pútín uppi

„Við munum á­fram beita refsi­að­gerðum gegn öllum þeim sem að­stoða og hvetja Pútín á­fram í á­rásar­hneigð sinni þar til Úkraína tekur sigur af hólmi,“ segir Truss í yfir­lýsingu.

Sam­kvæmt utan­ríkis­ráðu­neyti Bret­lands eru opin­berar eigur Pútíns hóg­værar en hann við­heldur lúxus­líf­stíl með að­stoð frá fjöl­skyldu, vinum og öðrum hátt­settum.

Rúm­lega þúsund ein­staklingar sæta nú refsi­að­gerðum af hálfu Bret­lands, auk rúm­lega hundrað fyrir­tækja eða fé­laga.