Bresk yfirvöld hafa greint frá nýjum refsiaðgerðum gegn fjölskyldu og innsta hring Vladimír Pútíns, forseta Rússlands. Meðal þeirra sem verða fyrir aðgerðunum er fyrrverandi eiginkona Pútíns.
Utanríkisráðherra Bretlands, Liz Truss, segir aðgerðirnar beindar að „tortryggilegu kerfi sem viðheldur lúxuslífstíl Pútíns“.
Lyudmila Ocheretnaya, fyrrverandi forsetafrú Rússlands, er meðal þeirra tólf sem aðgerðirnar beinast að í þetta skiptið. Rússneski fyrirtækjaeigandinn og frændi Pútíns, Mikhail Shelomov, er einnig á listanum.
Annað frændfólk Pútíns sem eru í háttsettum embættum innan rússneskra fyrirtækja er einnig á listanum og þurfa að sæta ferðabanni og frystingu eigna.
Vinir og fjölskylda halda Pútín uppi
„Við munum áfram beita refsiaðgerðum gegn öllum þeim sem aðstoða og hvetja Pútín áfram í árásarhneigð sinni þar til Úkraína tekur sigur af hólmi,“ segir Truss í yfirlýsingu.
Samkvæmt utanríkisráðuneyti Bretlands eru opinberar eigur Pútíns hógværar en hann viðheldur lúxuslífstíl með aðstoð frá fjölskyldu, vinum og öðrum háttsettum.
Rúmlega þúsund einstaklingar sæta nú refsiaðgerðum af hálfu Bretlands, auk rúmlega hundrað fyrirtækja eða félaga.