Nýjar inSAR gervitunglamyndir geta bent til kvikuinnskots nærri Fagradalsfjalli. Þetta staðfestir Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur við Fréttablaðið. Þá kemur þetta jafnframt fram í tilkynningu frá Vísindaráði almannavarna.
Ásta ferðaðist í dag um Reykjanesskaga ásamt Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi. Sagði Páll nú síðdegis að ein af þeim sviðsmyndum sem verði nú að taka alvarlegra eftir mælingar dagsins sé sú að kvika leiti upp á yfirborð og að gos verði mögulega á óvæntum stað.
Ásta segir að svæðið sem um ræðir sé á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Kvikuinnskot þurfi þó alls ekki að þýða að kvikan muni á einhverjum tímapunkti leita upp og að eldgos verði.
„Stundum hengur þetta bara niðri og fer ekkert upp,“ segir hún. Verði þó gos, sem hún tekur fram að þurfi alls ekki að vera, yrði umrætt svæði ágætt undir slíkt, sé tekið mið af fjarlægð við mannabyggð.
Hún segir að bíða verði fleiri gervitunglamynda til að fá nánari upplýsingar um það sem sé að eiga sér stað á Reykjanesi. „En kvikugangur er talinn líklegasta skýringin miðað við þessar myndir.“
Líkt og alþjóð veit hefur skjálftahrina riðið yfir Suðvesturhorn landsins frá því á miðvikudag. Segir Páll að núverandi skjálftahrina hafi staðið yfir í fjórtán mánuði. Að fá slíka hrinuvirkni í þetta langan tíma sé ekkert óvenjulegt.
Sagði hann að nýjustu vendingar þær að mælingar dagsins í dag virðist sýna að taka verði þá möguleika í reikninginn að kvika sé farin að streyma í neðsta hluta skorpunnar. Hann segir líklegasta gosstaðinn bakvið Keili, séð frá höfuðborgarsvæðinu.
Almannavarnir teikna upp mismunandi sviðsmyndir
Í tilkynningu frá Vísindaráði almannavarna kemur fram að almannavarnir undirbúi sig undir nokkrar sviðsmynidr vegna þessa.
Vísindaráð fór einnig yfir gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í dag. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga.
Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum meðal annars með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.
Mögulegar sviðsmyndir:
• Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
• Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
• Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
• Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
i) Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
ii) Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
Svæðið sem um ræðir séð á korti Google:
Tilkynning frá Vísindaráði almannavarna í heild sinni:
Fréttatilkynning frá Vísindaráði almannavarna, 1. mars 2020.
Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga.. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.
Fram kom á fundinum að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 1800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði SV af Keili og Trölladyngju. Af þessum 1800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð, 4,9 og átti hann upptök um 1 km ASA við Keili.
Vísindaráð fór einnig yfir gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í dag. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga. Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum m.a. með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.
Í ljósi þessara nýju gagna sem rædd voru á fundinum í dag er mikilvægt að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall.
Mögulegar sviðsmyndir:
• Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
• Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
• Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
• Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
i) Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
ii) Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu. Vísindaráð mun funda aftur á morgun til að leggja frekara mat á þau gögn sem liggja fyrir.