Nýtt undirafbrigði ómíkron, BA5, hefur greinst á Íslandi. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason í samtalið við Fréttablaðið.
„Það hafa fjórir eða fimm einstaklingar greinst með BA5 hér á Íslandi,“ segir Þórólfur. „Þetta eru allt einstaklingar sem hafa verið bólusettir en ekki fengið Covid og þeir eru ekki alvarlega veikir.“
Þórólfur segir erfitt að alhæfa nokkuð um undirafbrigðið á þessari stundu þar sem tilfellin séu fá, afbrigðið greindist fyrst í Suður-Afríku. „Við erum að reiða okkur á og fylgjast með upplýsingum frá útlöndum og það virðist vera að þetta sé kannski eitthvað meira smitandi heldur en fyrri ómíkron afbrigði en að veikindin séu svipuð. Veikindin virðast ekki vera meiri eða að veiran hegði sér einhvern veginn öðruvísi,“ segir hann.
Þá segir hann bólusetningu ekki virðast koma í veg fyrir smit af BA5. „Bólusetning hefur svo sem ekki verið að veita mikla vörn gegn ómíkron en það er of snemmt að fullyrða eitthvað í þessu, og það er líka of snemmt að fullyrða hvaða vernd fyrri sýking veitir gegn þessu undirafbrigði. Núna verðum við bara að fylgjast vel með,“ segir Þórólfur.