Stjórn­völd í Nýja-Sjá­landi hafa sam­þykkt að 26 ára kona sem grunuð er um að vera fyrrum með­limur Íslamska ríkisins fái að flytja til landsins frá Tyrk­landi með tveimur ungum börnum sínum.

Konan ólst upp í Ástralíu og var með tvö­faldan ríkis­borgara­rétt frá Ástralíu og Nýja-Sjá­landi en ástralski ríkis­borgara­rétturinn var aftur­kallaður fyrr á þessu ári og var á­kvörðunin harð­lega gagn­rýnd af Ja­cinda Ardern, for­sætis­ráð­herra Nýja-Sjá­lands, sem á­sakaði Ástralíu um að svíkja sér undan skyldum sínum.

Ardern sagði ríkis­stjórn sína hafa tekið til­lit til á­byrgðar á al­þjóða­vett­vangi jafnt sem máls­at­vikum þessa til­tekna máls, þar á meðal því að börn voru í spilinu.

„Líkt og flestir Ný­sjá­lendingar vita þá beitti ég mér fyrir því í við­ræðum við Ástralíu að hún fengi að snúa aftur þangað. Fjöl­skylda hennar flutti til Ástralíu þegar hún var sex ára og hún ólst þar upp áður en hún flutti til Sýr­lands árið 2014, með ástralskt vega­bréf. Því miður þá neitaði Ástralía að snúa við á­kvörðun sinni um að aftur­kalla ríkis­borgara­rétt konunnar,“ sagði Ardern á mánu­dag.

Hún sagði Ástrala hafa full­vissað sig um að þeir myndu leita til Nýja-Sjá­lands að fyrra bragði ef sam­bæri­leg mál koma upp í fram­tíðinni.

„Nýja-Sjá­land getur ekki aftur­kallað ríkis­borgara­rétt frá ein­stak­lingum og skilið þá eftir án ríkis­fangs í þeim til­vikum þar sem Nýja-Sjá­land er ríkis­fang borgara og eina landið þar sem þeir geta haft bú­setu laga­lega,“ sagði Ardern.

Konan var tekin af landa­mæra­vörðum í Tyrk­landi í febrúar þegar hún reyndi að sögn að komast ó­lög­lega inn í landið frá Sýr­landi á­samt tveimur börnum sínum.

Ferða­lagi fjöl­skyldunnar til Nýja-Sjá­lands verður haldið leyndu af öryggis­á­stæðum en með í ráðum er lög­regla og nokkrar aðrar öryggis­stofnanir.

Ardern sagði það vera í höndum lög­reglu að á­kveða hvort að Ný­sjá­lendingar sem grunaðir eru um tengsl við hryðju­verka­hópa muni sæta lög­reglu­rann­sóknum.

„Að veita land­vistar­leyfi var rétta á­kvörðunin í þessu máli en við á­skiljum okkur rétt að skoða öll sam­bæri­leg mál er koma upp í fram­tíðinni á ein­stak­lings­grund­velli sem byggi á hags­munum Nýja-Sjá­lands,“ sagði Ardern.