Íbúar Kyrrahafseyjaklasans Nýju-Kaledóníu á gengu í dag til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort eyjarnar verði áfram hluti af Frakklandi eða lýsi yfir sjálfstæði. Þjóðaratkvæðagreiðslan var sú þriðja sem haldin hefur verið um sjálfstæði Nýju-Kaledóníu og áætlað er að hún verði sú síðasta um fyrirsjáanlega framtíð.

Fyrsta atkvæðagreiðslan fór fram í nóvember 2018 og var sjálfstæði þá hafnað með 56,7 prósentum atkvæða. Í annarri atkvæðagreiðslunni kusu 53,3 prósent gegn því að lýsa yfir sjálfstæði.

Í þessari þriðju atkvæðagreiðslu kusu eyjarskeggjar með yfirgnæfandi meirihluta, eða um 96,5 prósentum atkvæða, að hafna sjálfstæðinu og vera áfram frönsk hjálenda. Þessi niðurstaða kemur þó ekki til með að vera óumdeild þar sem nýkaledónskir sjálfstæðissinnar sniðgengu atkvæðagreiðsluna og kjörsókn var því með dræmu móti, eða aðeins 43,9 prósent. Ástæða sniðgöngunnar var sú að sjálfstæðissinnar töldu sig ekki geta skipulagt almennilega kosningabaráttu vegna sprengingar í Covid-sýkingum á eyjunum sem hófst í september, en um 280 manns hafa látist úr sýkinni þar í landi.

„Í okkar augum var þetta ekki þriðja atkvæðagreiðslan,“ sagði Roch Wamytan, forseti nýkaledónska þingsins og leiðtogi sjálfstæðishreyfingarinnar. „Við teljum að með tilliti til lagalegs og pólitísks réttmætis hafi aðeins farið fram tvær atkvæðagreiðslur, árin 2018 og 2020. Þetta var atkvæðagreiðsla franska ríkisins og stuðningsmenn þess á Nýju-Kaledóníu, ekki okkar.“

Wamytan segir það liggja í augum uppi að sjálfstæðissinnar muni krefjast annarrar atkvæðagreiðslu. „Við munum ganga til viðræðna með þeim sem vinnur sigur í næstu forsetakosningum. Ef það verður Emmanuel Macron höldum við áfram viðræðunum.“