„Eins og jarðvísindamenn töluðu um í gær að þetta væri kannski fimm til tíu sinnum stærra gos, þá getum við búist við fimm til tíu sinnum meira magni af mengunarefnum,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Hann segir lúmska hættu standa að því að heimsækja gosstöðvarnar. „Mesta hættan er við gosstöðvarnar sjálfar. Þar er brennisteinsdíoxíð, sem er ertandi efni fyrir öndunarfærin,“ segir Þorsteinn og nefnir að fleiri gös séu til staðar, eins og koldíoxíð, „sem er ekki eitrað en það getur verið í það miklum styrk að það er farið að þynna út súrefni í loftinu.“
Hann segir það þekkjast erlendis að það líði yfir fólk vegna súrefnisskorts þegar það standi við gosstöðvar.
Þorsteinn segir Umhverfisstofnun vinna að því að koma upp loftgæðamælum við gosstöðvarnar, en tveir voru staðsettir við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Vinna við uppsetningu hófst strax í gær en kláraðist ekki. „Það verður vonandi klárt fyrir helgi,“ segir hann.

„Það mun koma að því að mengun berist yfir byggð,“ segir Þorsteinn en hann segir mæla víða á Suðurnesjunum og á Höfuðborgarsvæðinu koma að góðu gagni í mælingum á mengun frá gosinu.
„Það eru mælar víða, við erum í ágætis stöðu myndi ég segja. Höfuðborgarsvæðið er vel dekkað og á Suðurnesjum eru mælar á Vogum, Ásbrú og Grindavík. Síðan er ISAVIA með mæla við flugstöðina, í Sandgerði og Garði,“ segir Þorsteinn.