„Eins og jarð­vísinda­menn töluðu um í gær að þetta væri kannski fimm til tíu sinnum stærra gos, þá getum við búist við fimm til tíu sinnum meira magni af mengunar­efnum,“ segir Þor­steinn Jóhanns­son, sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun.

Hann segir lúmska hættu standa að því að heim­sækja gos­stöðvarnar. „Mesta hættan er við gos­stöðvarnar sjálfar. Þar er brenni­steins­díoxíð, sem er ertandi efni fyrir öndunar­færin,“ segir Þor­steinn og nefnir að fleiri gös séu til staðar, eins og kol­díoxíð, „sem er ekki eitrað en það getur verið í það miklum styrk að það er farið að þynna út súr­efni í loftinu.“

Hann segir það þekkjast er­lendis að það líði yfir fólk vegna súr­efnis­skorts þegar það standi við gos­stöðvar.

Þor­steinn segir Um­hverfis­stofnun vinna að því að koma upp loft­gæða­mælum við gos­stöðvarnar, en tveir voru stað­settir við gos­stöðvarnar í Geldinga­dölum. Vinna við upp­setningu hófst strax í gær en kláraðist ekki. „Það verður vonandi klárt fyrir helgi,“ segir hann.

Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun.
Fréttablaðið/Ernir


„Það mun koma að því að mengun berist yfir byggð,“ segir Þor­steinn en hann segir mæla víða á Suður­nesjunum og á Höfuð­borgar­svæðinu koma að góðu gagni í mælingum á mengun frá gosinu.

„Það eru mælar víða, við erum í á­gætis stöðu myndi ég segja. Höfuð­borgar­svæðið er vel dekkað og á Suður­nesjum eru mælar á Vogum, Ás­brú og Grinda­vík. Síðan er ISAVIA með mæla við flug­stöðina, í Sand­gerði og Garði,“ segir Þor­steinn.