Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið nýju afbrigði Covid-19 nafn, en það mun héðan af ganga undir nafninu Ómíkron.

Nýja afbrigðið, sem áður var þekkt undir B.1.1.529, hefur valdið töluverðum áhyggjum að undanförnu vegna fjölda stökkbreytinga á broddpróteinum þess. Óttast er að afbrigðið gæti orðið enn meira smitandi en Delta-afbrigðið sem hefur valdið síðustu bylgjum kórónuveirufaraldursins og að mögulega muni bóluefni ekki virka eins vel gegn því.

Ómíkron-afbrigðið greindist fyrst í Botsvana fyrr í nóvember en hefur einnig breiðst víða um Suður-Afríku á stuttum tíma. Útbreiðsla afbrigðisins hefur leitt til þess að mörg ríki hafa lokað á eða takmarkað ferðir til og frá sunnanverðri Afríku.