Nýtt Alzheimer-lyf, Lecanemab, sem miklar vonir eru bundnar við, kemur vonandi á markað árið 2024, eða eftir aðeins rúmt ár.
Þetta segir Jón Snædal öldrunarlæknir sem er nýkominn af ráðstefnu í San Francisco í Bandaríkjunum þar sem fjallað var um þýðingu lyfsins í baráttunni við sjúkdóminn illvíga sem að jafnaði fjögur þúsund Íslendingar glíma við hverju sinni.
„Ég fann vel að það var annað andrúmsloft á þessari ráðstefnu en áður hefur verið,“ segir Jón. „Það var augljóst á gestum hennar að menn eru að færa sig framar,“ bætir hann við.
Um eitt þúsund manns sóttu ráðstefnuna, læknar og vísindamenn víða að úr heiminum, en hún stóð yfir alla síðustu viku.
„Ég hygg að við séum að upplifa kaflaskil í baráttunni við Alzheimer,“ segir Jón og útskýrir: „Nýja lyfið, Lecanemab, mun hægja töluvert á framvindu Alzheimer-sjúkdómsins, líklega um þrjátíu prósent hjá þeim sem þegar eru gengnir með hann, en líklega meira hjá þeim sem eru fyrst að greinast með sjúkdóminn. Það verður mjög spennandi að fylgjast með nýjum rannsóknum á þeim sem geta fengið lyfið á fyrstu stigum Alzheimer og sjá hvað það hægir mikið á honum.“
Nýja lyfið er afrakstur af löngu þróunarferli sem hófst í Svíþjóð fyrir réttum þrjátíu árum þegar vísindamenn þar í landi uppgötvuðu gen sem kallað er heimskautagen á íslensku (e. arctic netation). Þetta áður ókunna gen veldur því að fólk fær Alzheimer. Með öðrum orðum fundu menn orsakavaldinn. Þar með fór lyfjaþróunin af stað.
Fram að því höfðu læknar yfir að ráða þekkingu til að mæla hið svokallaða amylouid-prótein í heilanum sem hann ræður ekki við. Það fellur sem agnir í heilanum og veldur rýrnun á taugafrumum. En þar er sjúkdómurinn sjálfur kominn.
„Núna ríkir meiri bjartsýni en áður. Það var augljóst á ráðstefnunni,“ segir Jón og hlakkar til komandi tíma þegar nýja lyfið verður fáanlegt hér á landi. „Notkun þess verður að vísu ekki einföld, en það verður gefið í æð á tveggja vikna fresti, líklega á göngudeild,“ útskýrir hann.
Og það er mikið í húfi, en hér á landi greinist að meðaltali einn á dag með Alzheimer-sjúkdóminn, sem er langalgengasta heilabilunin sem menn glíma við.