Nýir starfs­menn stéttar­fé­lagsins Eflingar fá ekki ó­tíma­bundinn ráðningar­samning heldur verða þeir að­eins ráðnir til sex mánaða til að byrja með. Þetta kemur fram á heima­síðu Eflingar, en þar kemur fram að þetta sé gert meðan látið er reyna á nýtt skipu­lag.

RÚV greindi fyrst frá þessu í gær­kvöldi.

Eins og greint var frá á dögunum var öllum starfs­mönnum fé­lagsins sagt upp störfum í apríl­mánuði og var aug­lýst í marg­vís­leg störf í kjöl­farið. Ó­víst er hversu margir verða ráðnir að þessu sinni, en í frétt á vef Eflingar kemur fram að nú­verandi starfs­menn séu hvattir til að sækja um.

Þó liggi fyrir að ekki verður hægt að tryggja öllum nú­verandi starfs­mönnum endur­ráðningu, þar sem fjölda stöðu­gilda fækkar, starfs­lýsingar verða breyttar og ný hæfni­við­mið í sumum til­vikum inn­leidd.

„Störf allra starfs­manna sam­kvæmt nýjum starfs­lýsingum og skipu­lagi undir breyttum ráðningar­kjörum hefjast eins fljótt og auðið er. Allir nýir ráðningar­samningar verða tíma­bundnir til 6 mánaða meðan látið er reyna á nýtt skipu­lag,“ segir í fréttinni á vef Eflingar.