Danir halda á kjörstaði í dag til að kjósa nýtt þing og nýja ríkisstjórn. Aðdragandi þess að kosið er nú tengist ákvörðun Mette Frederiksen forsætisráðherra um að láta lóga öllum minkum í Danmörku árið 2020 eftir að kórónaveirusmit greindist í nokkrum minkabúum.

Í skýrslu sem birt var í október sagði að þessi fjöldalógun hefði ekki staðist lög. Í kjölfar skýrslunnar skoraði Sofie Carsten Nielsen, leiðtogi Róttæka vinstriflokksins, á Frederiksen að kalla til kosninga, ella myndi flokkurinn styðja vantrauststillögu gegn stjórninni. Nielsen fékk sínu framgengt.

Fyrrverandi forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen, sem var við völd á árunum 2009 til 2011 og 2015 til 2019, hefur sett svip sinn á kosningabaráttuna. Hann stofnaði nýjan flokk, Hófsemdarflokkinn (Moderaterne), með það gagngert að markmiði að brjóta upp blokka­pólitík danskra stjórnmála og opna á möguleikann á samstarfi yfir miðju.

Skoðanakannanir benda til þess að flokkur Løkke, sem mælist með um níu prósenta fylgi, gæti komist í oddastöðu við myndun nýrrar ríkisstjórnar, hvort heldur til hægri eða vinstri – og væri þá jafnvel ekki útilokað að Løkke gæti samið um forsætisráðherrastólinn á ný.

Flokkur Løkke er ekki eina klofningsframboðið úr Venstre sem kann að gera sig gildandi eftir kosningarnar. Inger Støjberg, fyrrverandi innflytjendamálaráðherra, stofnaði nýjan flokk, Danmerkurdemókrata.

Líkt og nafnið gefur til kynna sver flokkurinn sig í ætt við Svíþjóðardemókrata sem náðu miklum árangri í þingkosningum Svíþjóðar í september og styðja nú minnihlutastjórn hægriflokkanna þar í landi. Flokkurinn er fylgjandi strangri innflytjendastefnu og er tortrygginn í garð Evrópusambandsins.