Upp er kominn galli í hinum nýja Herjólfi sem hefja á áætlunarferðir fljótlega.

Gallin er í stöðugleikaugga skipsins og leiðir til þess að sjór kemst í olíu á skipinu. Þetta mun ekki fresta áætlunarferðunum en enn er unnið að því að koma höfninni í Vestmannaeyjum í stand áður en þær geta hafist.

Herjólfur er tilbúinn til að sigla en skipið fer í slipp á Akureyri í haust.

„Það kemst sjór í olíuna og það þarf að skipta oftar um hana. Þetta er bara galli og eitthvað sem þarf að laga,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar við Fréttablaðið.

Enn er verið að laga aðstæður að nýja skipinu í Vestamannaeyjahöfn og hefjast áætlrunarsiglingar ekki fyrr en þeim framkvæmdum lýkur.

„Það eru svokallaðir fenderar í höfnini, venjulega eru bara dekk en til þess að það sé alveg öruggt og fljótlegra og öruggara að leggja að og frá þarf að setja þessa fendera sem eru öflugri heldur en bara dekkkin.“

Búið er að aðlaga ekjubrúnna í Eyjum að nýja Herjólfi en hækka þarf fenderana.

„Við erum að vinna að bráðabirgðalausn núna en varanleg lausn kemur síðar,“ segir Pétur sem segir enn óvíst um hvenær verði siglt. Það fari eftir því hvenær framkæmdum ljúki,“ segir G. Pétur Matthíasson.