Verkfræðingurinn Geir Ólafsson og eiginkona hans Jo Mit­chell komust ekki heim til sín um jólin af því að framrúða í þotu brotnaði í miðju flugi. Þurftu þau að borða hamborgara á skyndibitastaðnum Denny’s í Kosta Ríka öll jólin.

„Við misstum af jólunum,“ segir Geir sem býr í borginni Cheltenham í vesturhluta Englands. Hann og kona hans voru í tveggja vikna brúðkaupsferð í Mið-Ameríkuríkinu Kosta Ríka.

Ætluðu þau með vél British Airways aftur heim til Bretlands á Þorláksmessu og dvelja heima hjá foreldrum hans í Edinborg um jólin.

Yfir Atlantshafinu, í rúmlega 10 kílómetra hæð yfir sjávarmáli, varð Boeing 777 vélin hins vegar fyrir ísklumpi úr annarri þotu sem flaug 300 metrum fyrir ofan hana. Brotnaði rúðan en féll ekki saman og hélt alla leiðina til Jamaíku þar sem hún fór beint í viðgerð.

Mjög illa hefði getað farið ef glerið hefði algerlega gefið sig í flugstjórnarklefanum, enda 200 farþegar um borð.

Rúðan brotnaði yfir Atlantshafinu.

Geir og Jo höfðu ekkert frétt af farþegunum sem voru um borð og fengu litlar sem engar fréttir frá British Airways. Þetta setti heimkomuna og hátíðirnar í uppnám.

Ekki gekk að finna aðra ferð eða tengiflug til Bretlands og því var ljóst að þeir sem áttu flug yrðu að vera í Kosta Ríka á aðfangadag og jafnvel lengur.

Geir segist hafa séð fólk sárbiðja flugvallarstarfsfólk um að finna leið til að komast heim. Sumir hafi verið reiðir og sumir grátandi yfir að komast ekki til ástvina sinna um jólin.

„Við vorum sett á hótel og biðum eftir fréttum,“ segir Geir. „Við þorðum ekki að fara eða gera neitt því að kannski kæmi vél með litlum fyrirvara.“

Því þurftu þau að borða allar hátíðarmáltíðirnar á hamborgarastaðnum Denny’s við hótelið því illa gekk að koma annarri vél til San José, höfuðborgar Kosta Ríka. Það tókst þó loksins seint á annan dag jóla og voru Geir og Jo komin heim er Fréttablaðið náði tali af þeim.