Hafnarfjarðarbær mun færa nýfæddum bæjarbúum og foreldrum þeirra gjafir um það leyti sem barnið á að fæðast. Munu þær innihalda ýmsa hluti sem nýbakaðir foreldrar þurfa fyrstu mánuðina.

„Þessi hugmynd kom fyrst upp hjá okkur þegar við sáum hvernig nokkur sveitarfélög í Finnlandi gera þetta,“ segir Valdimar Víðis­son, formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar. „Þar fá fjölskyldur kassa að gjöf.“

Finnar hafa gefið slíka kassa síðan á fjórða áratug síðustu aldar og er það orðið að sterkri hefð þar í landi. Þar berst kassinn á fjórða mánuði meðgöngunnar en mæður hafa val um að fá frekar 170 evrur, um 25 þúsund krónur. Langflestar velja kassann, enda er verðmæti hans meira en 170 evrur.

Samfellur og fleira

Í finnska kassanum hafa meðal annars verið samfellur, húfur, vettlingar, buxur, náttföt, svefnpokar, útigalli, smekkir, pelar, hitamælar, brjóstapúðar, barnapúður, hárburstar, handklæði, bleiur, blaut­klútar, bækur og leikföng. Þá hefur honum fylgt sæng og dýna og því hægt að nota hann sem rúm.

Kassinn hefur breyst frá ári til árs en yfirleitt er fatnaðurinn í litum sem taldir hafa verið kynhlutlausir, oftast hvítum. Á undanförnum árum hefur verið hugað að því að hafa vörurnar í honum umhverfisvænar.

Síðastliðin fimm ár hafa fleiri lönd eða svæði fylgt frumkvæði Finna. Meðal annars Argentína, Skotland og New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Í Nunavut-fylki í norðurhluta Kanada var ákveðið að gefa kassa til þess að takast á við háan ungbarnadauða meðal innfæddra.

Síðasta lagi fyrir áramót

Aðspurður um hvernig hinn hafnfirski kassi verður útfærður, segir Valdimar að það verði gert í samstarfi við heilsugæsluna og ljósmæður. „Fyrstu skrefin eru að forvinna og hanna gjöfina. Vonandi verður hægt að koma þessu í framkvæmd í haust en þá í síðasta lagi um áramót,“ segir hann.

Nokkur umræða hefur verið um íbúafækkun í Hafnarfirði undanfarna mánuði eftir að íbúafjöldinn fór undir 30 þúsunda markið. Valdimar segir Hafnarfjörð hins vegar mjög fjölskylduvænt sveitarfélag og að þessi gjöf sé liður í þeirri stefnu að tryggja að svo verði áfram.

„Við höfum verið að setja upp ærslabelgi hér og þar í bænum, verið með systkinaafslætti, um jólin er alltaf mikið um að vera og svo eru hér góðir grunnskólar og leikskólar. Okkur er mjög umhugað um að halda því á lofti að Hafnarfjörður sé góður staður til að búa á,“ segir Valdimar.