Íslenska ríkið hefur verið sýknað af kröfum sýrlenskra flóttamanna sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi.

Parið var með dvalarleyfisskírteini frá grískum yfirvöldum og hafði fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi þar sem þau dvöldu í flóttamannabúðum í þrjú ár án þess að fá húsnæði. Konan vildi flytja til Íslands eftir að hún fann út að hún væri ólétt.

„Hún lagði áherslu á að hún hefði komið til Íslands vegna barnsins sem hún gengi með og að hún vildi að það fengi betra líf en kostur væri á í Grikklandi eða Sýrlandi. Þá vísaði hún til stríðsins í Sýrlandi og [...] tók fram að aðstæður hennar í Grikklandi hefðu verið slæmar og hefði hún til að mynda búið í tjaldi í flóttamannabúðum,“ segir í dómnum.

Með sprengjubrot í hálsinum

Maðurinn var enn með sprengjubrot í hendi og hálsi eftir stríðið þegar hann ræddi við Útlendingastofnun og greindi frá því að hann hefði fengið flogaköst, þó þau færu minnkandi. Á myndum sem voru teknar á göngudeild háls-,nef- og eyrnalæknis á Landspítala mátti sjá aðskotahluti í munnkoki mannsins eða brot úr sprengju frá árinu 2017.

„Hann tók fram að andleg heilsa sín væri núna í lagi en að hann hefði fundið fyrir andlegum erfiðleikum þegar hann hefði verið í Grikklandi, sem og eftir að hann var í fangelsi í Sýrlandi.“

Maðurinn sagðist hafa unnið á veitingastað í einn mánuð í Grikklandi en aldrei fengið laun. Að lokum var veitingastaðnum lokað vegna Covid-19.

„Hann lagði áherslu á að hann teldi enga framtíð fyrir fjölskylduna í Grikklandi og að hann óttaðist endursendingu þangað.“

Töldu hjónin geta yfirstigið hindranir

Eftir að konan fæddi barnið sitt hér á landi eftir 42 vikna meðgöngu hafnaði Útlendingastofnun umsókn fjölskyldunnar og ákvað að vísa þeim úr landi.

„Þá taldi Útlendingastofnun stefnendur ekki hafa slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar,“ kemur fram í dóminum.

Kærunefnd útlendingamála staðfesti úrskurð Útlendingastofnunar og sagði í mati sínu að hjónin væru ung, almennt heilbrigð og vinnufær með ungbarn á framfæri sínu. Ekkert benti til annars en að barnið væri einnig við góða heilsu og þau fær um að annast það.

„Hafi kærunefndin því talið að stefnendur gætu yfirstigið þær hindranir sem þau kynnu að mæta hvað varðaði aðgengi að réttindum og þjónustu í Grikklandi.“

Flóttamannabúðirnar Moira í Grikklandi.
Fréttablaðið/Getty images

Telur brotið gegn hagsmunum barnsins

Ákvað þá parið að leita réttar síns í héraðsdómi með því stefna íslenska ríkinu. Lögmaður fjölskyldunnar telur að með því að senda fjölskylduna til Grikklands sé verið að stefna heilsu og velferð barnsins í verulega hættu.

Lögmaður gerði athugasemd við það mat Útlendingastofnunar og kærunefndar að það væri barninu fyrir bestu að vera sent til Grikklands með foreldrum sínum. Mat á hagsmunum barnsins hafi verið óforsvaranlegt „enda hafi borið að horfa til þess að barnið hafi ekki aðgang að húsaskjóli, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, félagslegri aðstoð, framfærslu, menntun eða atvinnu.“

Dómari taldi rannsókn Útlendingastofnunar og kærunefndar hafa verið fullnægjandi og að stjórnvöld hafi byggt ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum og sýknaði því íslenska ríkið. Hjónunum og nýfæddu barni þeirra verður vísað úr landi.