Nefnd um vandaða starfs­hætti í vísindum, sem skipuð var fyrir tveimur árum, hefur aldrei getað tekið til starfa.

„Þetta er eigin­lega mjög baga­leg staða og að þetta mál komi upp núna sýnir þörfina á að koma starfi hennar í gang,“ segir Sigurður Kristins­son, prófessor í heim­speki og for­maður nefndar sem á meðal annarra verk­efna að hafa eftir­lit með því að sið­ferði­leg við­mið séu í heiðri höfð í starfi vísinda­manna.

Rit­höfundurinn og fræði­maðurinn Berg­sveinn Birgis­son hefur beint kvörtun til þessarar nefndar vegna meints rit­stuldar Ás­geirs Jóns­sonar seðla­banka­stjóra.

Nefndin var skipuð af for­sætis­ráð­herra í desember 2019 en var svo færð nær strax undir mennta­mála­ráðu­neytið, með for­seta­úr­skurði. Út­lit er fyrir að hún verði enn færð milli ráðu­neyta og til­heyri nýju vísinda- og ný­sköpunar­ráðu­neyti.

„Þegar mennta­mála­ráðu­neytið tók við nefndinni og farið var að reikna út hvað starfið muni kosta kom í ljós að það er mun meira en upp­haf­lega var á­ætlað,“ segir Sigurður. Hann vísar til hinna nýju laga og segir nefndinni ætlað heil­mikið starf, sér­stak­lega í upp­hafi starfs­tíma hennar. Safna þurfi upp­lýsingum og móta verk­ferla, meðal annars til að geta tekið við erindum. Hins vegar hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum kostnaði við starfið, utan ferða­kostnaðar nefndar­manna.

Sigurður Kristins­­son, prófessor í heim­­speki við Há­skólann á Akur­eyri.
Mynd/Aðsend

„Svo veit ég ekki betur en það hafi verið þrýst á þetta í fjár­laga­gerð síðan, en ekkert fé komið í þetta enn og ekki heldur í fjár­laga­gerð fyrir næsta ár,“ segir Sigurður.

Þrátt fyrir flakk nefndarinnar hefur kvörtun Berg­sveins skilað sér til formannsins.

„Ég er búinn að veita kvörtuninni við­töku og er búinn að upp­lýsa hann um að hún verði tekin til at­hugunar um leið og nefndin geti tekið til starfa,“ segir Sigurður. „Ég vonast til að þetta verði til þess að koma hreyfingu á málið.“