Fjöl­miðla­maðurinn Sigur­steinn Más­son sagði í Kast­ljósi nú í kvöld að hann teldi sig hafa fundið vís­bendingu í ó­upp­lýstu morð­máli frá árinu 1968. Það ár var leigu­bíl­stjórinn Gunnar Tryggva­son myrtur í bíl sínum við Lauga­læk. Í Kast­ljósi kom fram að lög­reglan hafi til­efni til að hefja frum­rann­sókn á málinu og hefur fengið öll gögn í hendur frá þátta­stjórn­endum.

Í bókinni Morðið á Lauga­læk segir:

„Það var að morgni fimmtu­dagsins 18. janúar 1968 sem framið var morð í Reykja­vík. Gunnar Sigurður Tryggva­son leigu­bíl­stjóri fannst myrtur í bíl sínum í Laugar­nes­hverfi. Hann hafði verið skotinn í höfuðið. Morðið var mjög ó­venju­legt vegna þess að um rán­morð virtist vera að ræða og einnig vegna þess að sá sem hafði framið þennan ó­hugnan­lega glæp hafði komist undan. Morðið vakti mikinn óhug og var um fátt ann­að talað meðal al­mennings dagana á eftir.

Á vett­vangi morðsins fannst skot­hylki úr skamm­byssu, 32 kalí­bera, en síðar kom í ljós að byssunni hafði verið stolið af heimili hótel­stjóra Hótels Borg, nokkru fyrr.“

Sigur­steins rifjaði ný­verið upp mál Gunnars í út­varps­þættinum Sönn ís­lensk saka­mál á Stor­yt­ell. Þar er fjallað um frá­sögn Val­geirs Skag­fjörð og hálf­systur hans Sigur­björgu Stein­dórs­dóttur frá árinu 1969 en þeim var sem börnum ógnað af manni sem vopnaður var skamm­byssu. Kynnti maðurinn sig og sagðist heita Þráinn. Sigur­steinn grunar að sá maður hafi verið Þráin Hleinar Kristjáns­son sem lést árið 2018. Hann varð ná­granna sínum að bana á Hverfis­götu árið 1979. Sigur­steinn telur á­kveðin líkindi með morðunum tveimur en tekur fram að ekki sé hægt að full­yrða slíkt. Sigur­steinn setti upp eigin sak­bendingu og sýndi syst­kinunum fimm myndir og var ein myndin af Þránni. Bæði syst­kinin bentu, nú öllum þessum árum seinna á mynd númer þrjú, mynd af Þránni.

„Ég veit það ekki, en númer þrjú kallar. Það er eitt­hvað í augunum á þrjú. And­lits­fallið og þessi hvössu augu drógu mig að þessu and­liti,“ sagði Val­geir Skag­fjörð í Kast­ljósi.

Val­geir hefur áður opnað sig um það at­vik þegar maðurinn ruddist vopnaður inn á heimilið en Val­geir var þá á þrettánda ári. Í sam­tali við DV árið 2010 kvaðst Val­geir tengjast málinu með tvennum hætti.

„Ég tengist þessu annars vegar þannig að mamma mín og sá sem var hand­tekinn fyrir morðið voru æsku­vinir. Hann var leigu­bíl­stjóri og í raun heimilis­vinur og skutlaði okkur krökkunum oft eitt­hvert ef á þurfti að halda.

Mamma var mjög veik manneskja, var virkur alkó­hól­isti og átti við geð­truflanir að stríða, og án þess að í­grunda það eitt­hvað á­kvað hún að gerast mál­svari vinar síns. Hún bjó til fjar­vistar­sönnun fyrir hann í þeirri von að hann yrði látinn laus, bjó til ein­hverjar sögur og flækti málin frekar en hitt. Þetta var ofsa­lega leiðin­legt og var ekki til þess að bæta þá ó­vissu sem ríkti í málinu.

Svo var það einn sunnu­dags­morgun, um ári eftir morðið, að mamma var ein­hvers staðar úti á djammi og ég og eldri systir mín því ein heima. Þá kom allt í einu ein­hver maður inn í í­búðina okkar. Hann gekk bara inn, settist við eld­hús­borðið okkar og dró upp skamm­byssu. Ég man að ég varð of­boðs­lega hræddur.“

Í við­talinu er haft eftir Val­geir að maðurinn hafi farið að sýna honum byssuna, þar sem hann hafi verið strákurinn á heimilinu. Hann hafi síðan sagt við Val­geir að hann hafi myrt Gunnar leigu­bíl­stjóra.

„Mér skilst að byssan sem notuð var við morðið hafi gengið á milli manna, og það eru líkur á því að byssan sem maðurinn var með hafi verið sú byssa, án þess að ég viti það fyrir víst. Byssan sem var notuð við morðið var víst úr safni Jóhannesar á Borg sem var mikill byssu­safnari. Grunurinn beindist að þessum vini mömmu af því að hann hafði verið að vinna um tíma hjá Jóhannesi á Hótel Borg.“

Val­geir sá síðan seinna myndir af morð­vopninu í blöðunum og telur hann að sú byssa hafi verið eins og sú sem maðurinn sem sagðist heita Þráinn kom með. Lög­reglan fann byssuna sem talið er að hafi verið notuð við morðið, í hanska­hólfi leigu­bíls vinar mömmu Val­geirs. Hann sagði í sam­tali við DV:

„En ef maður hugsar að­eins út í þetta, mundir þú geyma morð­vopnið í hanska­hólfinu á bílnum þínum ef þú værir leigu­bíl­stjóri og hefðir myrt ein­hvern? Það væri ekki mjög gáfu­legt, og því veltir maður fyrir sér hvort byssunni hafi verið plantað þarna. En það eru margar sögur alltaf í gangi um þetta mál og maður veit ekki hverju maður á trúa.“

Sá maður sat í 11 mánuði í gæslu­varð­haldi og var sýknaður. Val­geir sagði í sam­tali við DV:

„Ég fékk við­brögð frá ættingjum mannsins sem var hand­tekinn fyrir morðið. Ég lét til­leiðast að tala um þetta á þeim for­sendum að þetta gæti orðið til þess að hreinsa hugsan­lega sak­lausan mann af á­sökun um framið morð. En ég get auð­vitað ekki dæmt um það, ég var bara krakki. En ég á­kvað samt að segja frá minni upp­lifun af þessu máli.“

Sigur­steinn Más­son sagði í Kast­ljósi í kvöld um málið að ekki væri hægt að full­yrða um sekt Þráins en um væri að ræða sterka vís­bendingu.

„Ég er ekki með þessu að segja að þetta sé maðurinn sem varð Gunnari Tryggva­syni að bana. Það er full á­stæða til í ljósi þessara upp­lýsinga að skoða þetta betur. Nú er þessi maður sem að hugsan­lega mögu­lega ógnaði syst­kinunum, hann er látinn. Hann verður ekki sóttur til saka héðan í frá. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að það var annar maður í 11 mánuði í gæslu­varð­haldi grunaður um morðið á Gunnari á sínum tíma. Hans fjöl­skylda, börn og barna­börn eiga líka rétt á því að fá að vita hvað raun­veru­lega gerðist þarna ef mögu­leiki er að varpa frekara ljósi á málið.“

Karl Steinar Vals­son var einnig gestur í Kast­ljósi. Hann upp­lýsti að lög­regla hefði átt fund með þátta­gerðar­fólkinu og kynnt sér hvað þau höfðu undir höndum. Eftir að hafa skoðað gögnin hefði þótt á­stæða til að hefja frum­rann­sókn.