Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur nú sent bréf til allra grunn- og framhaldsskóla með leiðbeinandi viðmiðum um forvarnarfræðslu í skólum og hvatningu þess efnis að skólar fari vel yfir öryggisferla og viðbragðsáætlanir sínar.

Bréf þetta er sent í kjölfar umræðna um öryggismál í skólum og ályktun stjórnar og starfsfólks samtakanna Heimilis og skóla sem fjallaði um aðgengis- og öryggismál í skólum en nokkur at­vik sem áttu sér stað innan skólanna voru til­efni yfir­lýsingar þeirra í byrjun síðasta mánaðar.

Það er þegar brotið var kyn­ferðis­lega á barni í Austur­bæjar, þegar losaðar voru skrúfur á hjólum barna og þegar „ó­heppi­leg fræðsla“ rataði inn í fram­halds­skóla á landinu.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að þau hyggjast senda rafræna könnun til skólanna til þess að meta frekari viðbrögð og mögulega þörf á aðgerðum.

Þar segir einnig að unnin hafi verið drög að viðmiðum um framkvæmd heilsutengdra kynninga og fræðslu í skólum. Viðmiðin dragi annars vegar fram fyrirmæli í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og hins vegar leiðbeiningar Landlæknisembættisins um hvað virkar í tóbaks-, áfengis- og vímuforvörnum í skólum. Í bréfi ráðuneytisins til skólanna er hvatt til þess að viðmiðin séu nýtt til að stuðla að árangursríkum forvörnum.