Unnið hefur verið að því að koma verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins á laggirnar í Álftafirði við Súðavík svo árum skiptir. Viljayfirlýsing um verkefnið var fyrst undirrituð fyrir sjö árum en síðan þá hefur verið unnið að því að afla verkefninu nauðsynlegra heimilda og ganga frá skipulagi.
Þessi vinna hefur tekið mun lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi. Nú hillir hins vegar undir að verkefnið verði að veruleika.
Kalkþörungafélagið hefur tryggt sér nýtingarleyfi upp á 125 þúsund rúmmetra af kalkþörungum á hverju ári. Framkvæmdir eru hafnar við landfyllingu undir starfsemina á Langeyri rétt innan við íbúðabyggð í Súðavíkurþorpinu.
Við það skapast yfir 30 ný störf í sveitarfélagi sem telur einungis um 240 íbúa.
Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir ánægjulegt að skriður sé loks að komast á verkefnið. Framkvæmdir við landfyllingu gangi vel og svæðið sé farið að taka á sig mynd.
„Þetta er mikið hagsmunamál. Ekki bara út af þeim verðmætum sem skapast heldur líka fyrir samfélagið í Súðavík í heild,“ segir Halldór.
Að hans sögn á þó eftir að ryðja stærstu hindruninni úr veginum því enn eigi eftir ganga frá samningum við Orkubú Vestfjarða um raforkuna sem þarf til að knýja verksmiðjuna. Halldór segir að þótt orkuþörf verksmiðjunnar sé ekki nema sjö til átta megavött á ári þá sé það margfalt meira en núverandi aðstæður í Súðavík bjóði upp á.
„Samskiptin við Orkubúið hafa verið jákvæð en það er ekki búið að skrifa undir neinn samning. Auðvitað viljum við forðast í lengstu lög að keyra verksmiðjuna á gasi en ef þessi strengur verður ekki kominn í tæka tíð þá einfaldlega neyðumst við til þess.“
Halldór segist vonast til að hægt verði að leysa málið og að strengurinn verði kominn áður en starfsemin fari af stað.
„Við getum alveg klárað þetta, en tíminn er að verða naumur. Ég kann ekki að skýra af hverju þetta hefur tekið svona langan tíma en það eiga örugglega allir sinn þátt í því. Aðalmálið núna er að koma raforkumálum í Súðavík í viðunandi horf svo við getum nýtt græna orku frekar en gas,“ segir Halldór