Vísindamenn í Ahus í Noregi hafa fundið mótefni gegn Covid-19 í sýnum úr þunguðum konum, síðan í desember 2019. Það er mánuði áður en kynnt var um fyrstu Covid-smitin í Evrópu.

„Þessi uppgötvun breytir því hvernig saga faraldursins er skoðuð,“ segir verkefnastjóri rannsóknarinnar Anne Eskild, í fréttatilkynningu sem send var á norska fjölmiðla.

Fyrsta skráða tilfelli kórónuveirunnar fram að þessu er frá 27. janúar 2020 í Frakklandi. Elstu norsku tilfellin til þessa eru frá 24. febrúar í Tromsø.

NRK segir frá málinu. Þar segir að með skipulegri leit að mótefnum fyrir veirunni í blóðsýnabanka Háskólasjúkrahússins í Akershus hafi vísindamönnum tekist að greina mótefni í sýnum sem tekin voru í desember 2019, á sama tíma og fyrstu tilfellin greindust í Kína.

„Þetta kemur gríðarlega á óvart. Við rannsökuðum sýni síðan í desember til þess að vera algjörlega handviss um að vera að fara nógu langt aftur í tíma. Við bjuggumst alls ekki við að finna jákvæð sýni,“ segir Eskild í samtali við NRK.