Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar munu rukka eftir eigin gjaldskrám eftir helgi en þá hættir stéttin að starfa samkvæmt rammasamningi sem rann út í byrjun ársins 2019. Gerðardómur dæmdi í máli Sjúkraþjálfara og SÍ rétt fyrir jól og tekur sá dómur gildi eftir helgi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun birta nýja reglugerð á morgun, föstudag, til að tryggja endurgreiðslu sjúkratryggðra sem gildir frá 12. janúar til 31. mars en reglugerðin var undirrituð 23. desember síðastliðinn.

Reglugerðin tryggir sjúklingum endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara þótt þeir starfi án samnings. Endurgreiðslan miðast við gjaldskrá SÍ og mun stofnunin ekki greiða önnur eða hærri gjöld en kveðið er á um í gjaldskrá SÍ.

„Meðan sjúkraþjálfarar hækka ekki verðskrá sína umfram gjaldskrá stofnunarinnar verður hlutfall endurgreiðslu til sjúklinga það sama og verið hefur,“ segir í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins. Sjúkraþjálfarar munu eflaust hækka verðskrár sínar eftir helgi miðað við vísitölur en það fer eftir aðstæðum á hverri stofu fyrir sig.

Samninganefnd sjúkraþjálfara og SÍ fundar næsta mánudag áður en samningaviðræður hefjast að alvöru. Aðalmálefnið fram undan verður fyrirhugað útboð sem sjúkraþjálfarar hafa gagnrýnt harðlega.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segist vonast til þess að aðrir möguleikar en útboð verði ræddir.

„Maður verður alltaf að vera bjartsýnn. Við erum reiðubúin til þess að ræða framtíðarfyrirkomulag við Sjúkratryggingar,“ segir Unnur.