Í stað þess að farþegar þurfi við öryggisleit á alþjóðaflugvöllum að taka tölvur sínar og vökva upp úr handfarangri, stefnir í að Leifsstöð, líkt og fleiri flugvellir, innleiði nýjan tæknibúnað sem heimilar farþegum að fara í gegnum öryggisleit án þess að þurfa að fjarlægja hluti úr handfarangri sínum.

Alþjóðaflugvöllurinn í Helsinki hefur nýverið innleitt þennan nýja tæknibúnað. Búnaðurinn greinir innihald farangurs með mun nákvæmari hætti en núverandi tækni gerir og getur greint vökva sem er staðsettur í tösku og veitt upplýsingar um hvort hann er hættulegur eða ekki.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir um spennandi tæknibreytingu að ræða sem muni flýta fyrir öryggisleit farþega en auka um leið öryggi á flugvöllum og í loftförum.

Auður Ýr Sveinsdóttir, yfirmaður flugverndar Isavia á Keflavíkurflugvelli, segir að margir flugvellir séu að skoða þessa tækninýjung. Nokkrir flugvellir hafi nú þegar innleitt tæknina með góðum árangri.

„Já, það má segja að það sé ákveðin bylting handan við hornið í þessum efnum,“ segir Auður. „Þetta er búnaður sem mun breyta mjög miklu fyrir þægindi farþega og auka um leið öryggi jafnt ferðalanga og starfsfólks flugvallanna.“

Líkja má nýju tækninni við sneiðmyndatöku af farangri, að sögn Auðar, í stað röntgenmyndatöku sem núverandi búnaður byggi á.

„Í sneiðmyndatöku verður skýrleiki gagnanna, það er að segja innihaldsins í handfarangrinum, miklu betri. Við erum fyrst og fremst að tryggja aukið öryggi og um leið aukast þægindi farþega, sem er virkilega ánægjuleg þróun.“

Sem fyrr segir getur nýja tæknin greint hvers konar vökvi er á ferð, til að mynda hvort um ræði vatn eða vökva sem geti reynst hættulegur. Ef upp koma vafamál hefur starfsfólk betri búnað til að byggja ákvörðun á.

Innkaupaferli Isavia er fram undan vegna þeirrar byltingar sem fram undan er og er um töluverða fjárfestingu að ræða. Efnt verður til útboðs. Innkaup og innleiðing mun taka sinn tíma og er viðbúið að ferðalangar í Leifsstöð þurfi að bíða í einhver ár eftir þessum breytingum.

„Þetta er sá hluti ferðalaga sem fólk kvíðir mest,“ segir Auður. Öryggisleit er ekki síst þyrnir í augum aldraðra og þeirra sem ekki eru vanir að ferðast, en sá hópur sér nú fram á betri tíma.

„Að auki höfum við verið að reyna að bæta þjónustu og viðmót við farþega sem fara um flugvöllinn. Það hefur skilað sér í aukinni ánægju farþega með störf okkar,“ segir Auður.