Undan­farinn sólar­hring hefur enn bætt í fjölda smitaðra á Norður­landi eystra. Í morgun voru 92 ein­staklingar í ein­angrun og 341 í sótt­kví en ný smit sem greindust síðasta sólar­hring eru á Akur­eyri og á Dal­vík.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá að­gerða­stjórn al­manna­varna á Norður­landi eystra.

Í til­kynningunni kemur fram að smitrakning hafi al­mennt gengið vel en einnig séu dæmi um smit með ó­þekktan upp­runa. Þykir ljóst að til staðar er svo­kallað sam­fé­lags­legt smit á svæðinu.

„Smit sem greinst hafa undan­farna daga eru bæði innan fjöl­skyldna og einnig má rekja smit til starf­semi fyrir­tækja. Smit hefur þannig greinst hjá starfs­fólki leik­skólans Kríla­kots á Dal­vík og verið að vinna í greiningu og upp­lýsinga­gjöf. Smit kom einnig upp meðal starfs­fólks í fisk­vinnslu á Dal­vík en talið er að þau smit megi rekja annað.“

Þá kemur fram að bæði starfs­fólk og gestir veitinga­húss á Akur­eyri hafi verið settir í sótt­kví eftir smit sem kom þar upp hjá starfs­manni. Smit hafa enn ekki komið fram sem tengjast því. Þá segir að komið hafi upp smit hjá starfs­fólki í sér­vöru­verslun á Gler­ár­torgi en eftir nokkuð ítar­lega skoðun á því máli hefur ekki verið talin á­stæða til að hafa upp á við­skipta­vinum þeirrar verslunar.

„Að­gerða­stjórn hefur verið í nánu sam­bandi við aðila á Dal­vík vegna þess fjölda smita sem þar hafa komið upp og mun fylgjast grannt með fram­gangi mála þar. Að­gerða­stjórn al­manna­varna á Norður­landi eystra brýnir fyrir al­menningi að gæta sér­stakrar var­úðar og fylgja vand­lega þeim reglum sem settar hafa verið til að tak­marka út­breiðslu far­sóttarinnar sem og öllum leið­beiningum sótt­varna­læknis.“