Stofnun sjúk­dóma­eftir­lits og sjúk­dóma­varna í Kína (CCDC) segir aldraða og þá sem eru veikir fyrir séu lík­legastir til að smitast af kóróna­veirunni Co­vid-19 en þetta kemur fram í skýrslu stofnunarinnar. Rann­sóknin að baki skýrslunnar er sú stærsta sem fram­kvæmd hefur verið frá því að veiran kom fyrst upp.

Alls hafa rúm­lega 73 þúsund manns smitast af veirunni frá því að fyrsta stað­festa smitið kom upp í kín­versku borginni Wu­han í Hubei-héraði og tæp­lega 1900 manns látist. Rúm­lega 12 þúsund manns hafa náð sér eftir að hafa smitast að því er kemur fram í frétt BBC um málið.

Sam­kvæmt rann­sókn CDCC eru meira en 80 prósent smita talin væg, tæp­lega 14 prósent al­var­leg og tæp­lega fimm prósent lífs­hættu­leg. Þeir sem eru með hæstu dánar­tíðnina er fólk sem er eldra en 80 ára en tíðnin er tæp 15 prósent. Engin dauðs­föll hafa verið meðal barna sem eru yngri en níu ára. Þá eru karl­menn ör­lítið lík­legri til að smitast en konur.

Skemmtiferðaskip í hættu

Kóróna­veiran hefur haft mikil á­hrif um allan heim en kín­versk stjórn­völd greindu frá því um helgina að þau teldu sig vera að ná stjórn á far­aldrinum. Dauðs­föll af völdum veirunnar frá því í gær voru 98 og voru 1886 ný smit stað­fest, flest þeirra í Hubei-héraði.

Þrátt fyrir að stað­fest smit hafi komið upp í 27 löndum utan Kína hafa flest til­fellin komið upp í Kína og hafa að­eins fjórir látist af völdum veirunnar utan megin­lands Kína. Á eftir Kína hafa flest til­fellin komið upp í Japan þar sem 454 far­þegar skemmti­ferða­skipsins Diamond Princess hafa verið í sótt­kví frá 3. febrúar.

Unnið er að rýmingu skipsins og hafa til að mynda banda­rískir ríkis­borgarar verið fluttir frá borði. Þá reyna yfirvöld í Kambódíu nú að finna hundruð farþega sem yfirgáfu skemmtiferðaskipið Westerdam eftir að bandarísk kona sýndi einkenni eftir að farþegar stigu frá borði. Hafnaryfirvöld í fimm löndum í Asíu neituðu að hleypa umræddum farþegum frá borði áður en þeir fengu að stíga á land í Kambódíu.

Japanir nota HIV lyf gegn veirunni

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið hafa Japanir nú hafið klíníska rann­sókn á því hvort hægt sé að nota HIV lyf til með­ferðar veirunnar. Búist er við að rann­sóknin hefjist innan skamms en yfir­völd hafa ekki gefið upp hve­nær niður­stöður liggja fyrir.

Læknar í Tæ­landi full­yrtu fyrr í mánuðinum að þeim hafi tekist að setja saman lyfja­kok­teill sem virkað hafi á sjúk­ling en ekki hefur komið fram hvort slíkur lyfja­kok­teill hafi virkað á aðra.