Sótt­varnar­læknir hefur lagt til nýja skil­greiningu á tveggja metra reglunni við heil­brigðis­ráð­herra. Hún felst í því að fólk megi standa eða sitja þétt saman en að við­kvæmum ein­stak­lingum sé á­vallt tryggð tveggja metra fjar­lægð ef þeir vilja. Skil­greiningin tekur gildi á mánu­dag.


Allir eru þó hvattir til að halda tveggja metra fjar­lægð í sam­skiptum við aðra eftir því sem að­stæður leyfa. Því verður vinnu­stöðum og verslunum eða við­burða­höldurum ekki gert skylt að sjá til þess að allir haldi tveggja metra fjar­lægð. Í minnis­blaði sóttvarnarlæknis segir þó að leitast skuli eftir því að bjóða fólki kostinn á því eins og kostur er.


Það verður hins vegar skylda að bjóða upp á tveggja metra fjar­lægð þar sem al­menningur á ekki kost á öðru en að mæta eða þar sem veitt er lög­bundin þjónusta.


Þessi nýja skil­greining er liður í af­léttingu tak­markana á sam­komum sem taka gildi á mánu­daginn 25. maí. Þá verður fjöldi þeirra sem koma saman einnig færður úr 50 manns upp í 200. Engar sér­stakar tak­markanir verða á í­þrótta­starfi nema þær að há­marks­fjöldi full­orðinna sem æfa í sama rými verður 200.


Líkams­ræktar­stöðvar munu þá opna aftur en eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag verða vissar tak­markanir á þeim. Þær verða í sam­ræmi við reglur í sund­laugum landsins sem opnuðu í byrjun vikunnar; leyfi­legur há­marks­fjöldi gesta má ekki vera meiri en helmingur há­marks­fjölda sam­kvæmt starfs­leyfi. Ef enginn há­marks­fjöldi er skráður í starfs­leyfinu skal miða gesta­fjölda við helming búnings­klefa. Skemmtistaðir og barir opna einnig á mánudaginn en mega aðeins hafa opið til klukkan 23.

Svipað og aðgengi fatlaðs fólks

Því þurfa líkams­ræktar­stöðvar, leik­hús, bíósalir, strætó, sund­laugar, veitinga­staðir og verslanir ekki lengur að passa upp á að allir gestir þeirra haldi tveggja metra fjar­lægð. Að­eins er mælst til þess að þessir staðir veiti við­kvæmum hópum mögu­leikann á gömlu tveggja metra reglunni.


„Hug­myndin er að sett verði regla sem er svipuð og regla er varðar að­gengi fatlaðs fólks að ýmissi þjónustu, þ.e. að gert sé ráð fyrir að ein­staklingar, sér­stak­lega við­kvæmir ein­staklingar, þurfi meira pláss eða aðrir og að einnig geti reglan verið val fólks,“ segir í minnis­blaði sótt­varnar­læknis.