„Við þurfum að nýta helgina vel og dagana þar í framhaldinu og þá trúi ég að þetta fari að klárast,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um ganginn í viðræðum stjórnarflokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Hann segist hafa trú á því að unnt verði að mynda stjórn í næstu viku. Viðræðum hafi miðað vel þótt hlé hafi orðið á þeim í þessari viku vegna loftslagsráðstefnunnar og funda Norðurlandaráðs.

Ekki hafa fleiri en formennirnir þrír komið með beinum hætti að viðræðum en aðspurður segir Bjarni að þau hafi aðstoðarfólk með sér í verkefnum tengdum viðræðunum.

Alþingi verður ekki sett nema fjármálaráðherra sé tilbúinn með fjárlagafrumvarp til framlagningar.

Aðspurður bendir Bjarni á að reynslan sýni að vel sé unnt að ljúka fjárlagagerð með stuttum fyrirvara eftir myndun ríkisstjórnar og vísar til þess að fyrir fjórum árum var stjórnin mynduð 30. nóvember. Þá var fjárlagafrumvarp lagt fram 14. desember og fjárlögin samþykkt í þinginu 30. desember.

„Við erum auðvitað með ákveðinn grunn í fjármálaáætlun sem fjárlög næsta árs byggja á,“ segir Bjarni, um vinnu við fjárlagafrumvarpið.

Þá liggi að stórum hluta fyrir áætlun um tekjur á grundvelli fyrirliggjandi laga og spá um útgjöld miðað við verðlagsþróun.

„Auðvitað eru möguleikar nýrrar stjórnar til að setja mark sitt á þetta fjárlagafrumvarp takmarkaðir en það þýðir ekki að við ætlum ekki að gera það,“ segir Bjarni og bætir við: „Við munum auðvitað setja mark okkar á það og taka ábyrgð á því.“