Ný ríkisstjórn verður kynnt um helgina. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra við Fréttablaðið en hún segir að ekki hafi náðst að hnýta lokahnúta stjórnarmyndunar á lokametrum kjörbréfamálsins.

Aðspurð segist Katrín ekki geta sagt til um hvort stjórnin verði kynnt á laugardag eða sunnudag. Það liggi ekki fyrir.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er þó talið líklegra að það verði á sunnudag enda þurfi að boða fundi í tilteknum stjórnum og ráðum flokkanna þriggja, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, áður en stjórnarsáttmáli er undirritaður.

Fjárlagafrumvarp rætt í næstu viku

Þing kemur næst saman miðvikudaginn, 1. desember klukkan 13 og þá verður kosið í fastanefndir, forseti þingisns kjörinn og frumvarp til fjárlaga væntanlega lagt fram.

Stefnuræða forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar fer væntanlega fram það sama kvöld og fyrsta umræða um fjárlög fimmtudaginn 2. og föstudaginn 3. desember.