Á morgun, laugardag, verða flokksstofnanir stjórnmálaflokkanna kallaðar saman til fundar þar sem nýr stjórnarsáttmáli verður lagður fyrir til samþykktar.

Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við Fréttablaðið.

Flokksstofnanir hafa þó ekki áhrif á skiptingu ráðuneyta eða ráðherraval flokksformanna.

Þingflokkar verða síðan kallaðir saman fyrir hádegi á sunnudag þar sem ráðherralistinn verður borinn upp til samþykktar.

Eftir hádegi á sunnudag er gert ráð fyrir því að ný ríkisstjórn verði kynnt. Að þeirri kynningu lokinni fer fram ríkisráðsfundur á Bessastöðum með forseta Íslands.

Fjárlagafrumvarp rætt í næstu viku

Þing kemur næst saman miðvikudaginn, 1. desember klukkan eitt og þá verður kosið í fastanefndir, forseti þingisins kjörinn og frumvarp til fjárlaga væntanlega lagt fram.

Stefnuræða forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar fer væntanlega fram það sama kvöld og fyrsta umræða um fjárlög fimmtudaginn 2. og föstudaginn 3. desember.