Ný reglu­gerð um að­gerðir á landa­mærunum og komu far­þega til landsins tekur gildi á mið­nætti í kvöld en heil­brigðis­ráðu­neytið hefur nú birt spurningar og svör við efni reglu­gerðarinnar á vef Stjórnar­ráðsins.

Sam­kvæmt reglu­gerðinni er öllum far­þegum sem koma frá há­á­hættu­svæðum skylt að fara í sýna­töku við komuna til landsins, líka þeir sem eru með bólu­setningar­vott­orð eða vott­orð um fyrri smit, og að dvelja á sótt­varnar­húsi. Sýna­takan og dvöl á sótt­varna­húsi er far­þegum að kostnaðar­lausu.

Þau lönd eða svæði þar sem 14 daga ný­gengi smita á hverja 100 þúsund íbúa er 500 eða meira, upp­lýsingar um svæðið liggja ekki fyrir, eða fjöldi sýna eru undir 300 á hverja 100 þúsund íbúa, eru flokkuð sem há­á­hættu­svæði sam­kvæmt reglu­gerðinni.

Þeir sem koma frá löndum þar sem ný­gengi er minna en 700 á hverja 100 þúsund íbúa geta óskað eftir undan­þágu frá því að dvelja á sótt­varnar­húsi ef þeir upp­fylla skil­yrði sótt­kvíar í hús­næði á eigin vegum. Ef þeir brjóta á reglum um heima­sótt­kví getur sótt­varna­læknir skikkað þá í sótt­varna­hús.

Þá verða undan­þágur ekki veittar fyrir far­þega sem koma frá löndum þar sem ný­gengi er meira en 700 á hverja 100 þúsund íbúa nema veiga­miklar á­stæður mæla með því, til að mynda vegna fötlunar, þroska, eða annarra sam­bæri­legra að­stæðna um­sækj­enda.

Hægt er að kæra á­kvarðanir um sótt­kví til héraðs­dóms og geta ein­staklingar sem þurfa að sæta sótt­kví komið ó­á­nægju sinni á fram­færi með því að senda tölvu­póst á svl@land­la­eknir.is.

Nánari upplýsingar um reglugerðina má finna hér.