Hljómsveitin Sigur Rós mun gefa út stúdíóplötu í júní. Þetta verður áttunda plata sveitarinnar en sú fyrsta í áratug. Síðasta plata sem Sigur Rós gaf út var Kveikur árið 2013.
Þá hefur hljómsveitin tilkynnt tólf borga tónleikaferðalag til að fylgja eftir útgáfunni. Fyrstu tónleikarnir verða í Lundúnum þann 16. júní. Þá taka við tónleikar í Amsterdam, Hamborg og París áður en haldið er vestur yfir haf til Bandaríkjanna og Kanada.
Ýmislegt hefur gengið á hjá Sigur Rós frá þeim tíma sem þeir sendur frá sér síðustu stúdíóplötuna. Meðal annars umfangsmikið skattsvikamál sem meðlimir hljómsveitarinnar voru sýknaðir af. Árið 2018 hætti trymbill sveitarinnar, Orri Páll Dýrason, eftir ásakanir um kynferðisbrot.
Engin áform eru um tónleika á Íslandi í sumar en Sigur Rós hélt stórtónleika í Laugardalshöll þann 25. nóvember síðastliðinn með húsfylli. Það voru fyrstu tónleikar sveitarinnar á Íslandi í fimm ár.
Ekki hefur verið greint frá titili nýju plötunnar en Sigur Rós hefur þegar flutt lög á tónleikum sem verða á henni. Það er lögin Gold 2, Gold 4 og Angelus 4.