„Nú er ný ógn að steðja að okkur sem eru sinubrunar eða mosabrunar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. Heilmiklir reykjabólstrar stíga nú upp við gosið. Mjög þurrt hefur verið á svæðinu undanfarið og sinubrunar á suðurvesturlandinu verið miklir.

Fannar segir verulega hættu á útbreiddum gróðureldum í kringum bæinn af völdum eldgossins í Geldingadölum. Ferðafólk sé þar af leiðandi í hættu en um hundrað þúsund manns hafa nú skoðað gosið.

Fannar ræddi þetta á Fréttavaktinni á Hringbraut, miðvikudag.

Slökkvilið í viðbragsstöðu

„Og ef þetta nær upp á slétturnar og fjallshlíðunum þá gæti það orðið verulegir brunar og umfangsmiklir og þetta yrði þá gróður sem tæki mörg ár að jafna sig og slökkviliðið okkar hérna og önnur í nágrenninu eru í viðbragðsstöðu ef eldurinn fer að sækja þarna upp á hlíðarnar,“ bendir hann á.

Möguleiki er á að boðið verði á ferðir upp að gosi. „Það eru landeigendur sem hafa mest með það að gera og allt gert í samráði við Umhverfisstofnun og ferðamálasamtök og svo framvegis,“ segir Fannar og þá yrði um að ræða sérútbúna bíla sem færi með fólk á staðinn en ekki að einstaklinga sem væru á eigin vegum, heldur skipulagðar ferðir.