Neðri málstofa spænska þingsins samþykkti í á fimmtudag frumvarp sem setur samþykki í forgrunn skilgreiningar á nauðgun. Með frumvarpinu, sem gengur undir gælunafninu „Aðeins já þýðir já“, er gerð sú breyting að þolendur kynferðisofbeldis verða ekki lengur að sanna að ofbeldi eða hótun hafi verið beitt gegn þeim. Nauðgun er skilgreind sem kynlíf án samþykkis.

„Frá og með deginum í dag er Spánn frjálsara og öruggara land fyrir allar konur,“ sagði spænski jafnréttisráðherrann Irene Montero. „Við munum skipta út ofbeldi fyrir frelsi og við munum skipta út ótta fyrir löngun.“

Ríkisstjórn Pedro Sánchez og Sósíalistaflokksins hefur talað fyrir frumvarpinu frá árinu 2018. Nauðgunarlög Spánar urðu þá mjög umtöluð eftir að myndband fór í dreifingu af fimm karlmönnum nauðga 18 ára gamalli stúlku í Pamplona.

Dómarar töldu ekki um nauðgun að ræða þar sem konan hefði þagað og ekki veitt mótspyrnu. Hæstiréttur dæmdi mennina hins vegar fyrir nauðgun. Efri deild spænska þingsins á eftir að kjósa um frumvarpið. Þjóðarflokkurinn og hægripopúlistaflokkurinn Vox hafa mælt gegn því að það verði að lögum.