Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu svokallaða hófst í morgun fyrir Landsrétti með tveggja klukkustunda löngu myndbandi sem sýndi ferðir fjórmenninga málsins daginn sem hinn þrjátíu og þriggja ára gamli Armando Begiri var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar í fyrra.

Myndbandið var sýnt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma en nokkrum myndbrotum hafði verið bætt við. Þau sýndu brot úr myndavélum víðsvegar um borgina ásamt ferðalagi þeirra norður á land eftir að Armando hafði verið myrtur. Myndbandið hafði ekki verið sýnt í heild sinni áður, fyrr en í Landsrétti í dag.

Skýrslutökur endurfluttar

Þegar myndbandinu lauk tók við skýrsla yfir Angjelin Sterkaj, sem játaði verknaðinn, frá héraði sem Fréttablaðið fjallaði um á sínum tíma. Fátt nýtt hefur komið fram við aðalmeðferð málsins það sem af er degi. Réttarhöldin munu halda áfram eitthvað frameftir degi, á morgun og á föstudag fer síðan fram munnlegur málflutningur.

Þegar þessi frétt er skrifuð er verið að sýna myndband af skýrslu Claudiu Sofiu Coel­ho Car­va­hlo, fyrrverandi kærustu Angjelin, fyrir héraði í Landsrétti en hún er ein þriggja sem saksóknari vill að sakfelld verði fyrir aðild að morðinu á Armando.

Þremenningarnir voru sýknaðir fyrir héraði því ekki taldist sannað að þau hefðu vitað eða mátt vita hvað Angjelin hefði haft í hyggju áður en hann myrti Armando. Saksóknari fer fram á minnst fimm ára fangelsi yfir þremenningunum.

Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, Angjelin Sterkaj.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðild að morðinu eða ekki

Angjelin játaði verknaðinn nokkru eftir morðið og hefur ávallt haldið því fram að hann hafi verið einn að verki. Hann fékk sextán ára dóm í héraði en saksóknari fer fram á að dómurinn yfir honum verði þyngdur í upp í átján til tuttugu ár.

Þá fer saksóknari jafnframt fram á að þrír aðrir sakborningar, sem héraðsdómur sýknaði, verði dæmdir fyrir aðild að morðinu. Það eru þau: Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, fyrrverandi kærasta Angjelin, Murat Selivrda og Shpetim Qerimi. Claudia og Murat eru viðstödd í dag en ekki Angjelin og Shpetim.

Aðalmálið fyrir Landsrétti er það hvort þríeykið hafi haft vitneskju um morðið á Armando, fyrir eða eftir það.

Við aðalmeðferð málsins í héraði var Angjelin spurður út í það hvort einhver hefði vitað af morðinu á Armando sagði hann svo ekki vera. Enginn hafi vitað neitt fyrir eða strax eftir morðið. Upprunalega hafi hann eingöngu ætlað að sættast við hann.

Murat og Claudia voru viðstödd í Landsrétti í dag.
Fréttablaðið/Helena Rós