Verið er að byggja nýtt búsvæði fyrir mjaldrana Litlu- Grá og Litlu-Hvít í Klettsvík við Heimaey. Systurnar hafa verið í sjávarlaug við ströndina undanfarna mánuði. Aðeins var búist við því að þær myndu verja nokkrum mánuðum í lauginni og þær áttu að fara aftur í Klettsvíkina í byrjun árs 2021.

Þegar mjaldrasysturnar komu til landsins, 8. ágúst 2020, bjuggu þær fyrst um sinn í sjávarlauginni svo hægt væri að fylgjast með þeim og veita þeim þá aðstoð sem þær þurftu. Seinna voru þær fluttar í Klettsvík þar sem búið var að útbúa aflokað náttúrulegt svæði fyrir þær.

Þær höfðu búið í víkinni í fjóra mánuði þegar þær voru fluttar í sjávarlaugina aftur til að verjast kuldanum yfir vetrarmánuðina. Dvöl þeirra í lauginni hefur lengst vegna þess að illa gekk að fá nauðsynlegar viðbætur á innviði í víkinni.

Erfiðleikana má rekja til kórónaveirufaraldursins, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu athvarfsins. Búist er við því að hægt verði að ráðast í viðbæturnar og flytja mjaldrana aftur í víkina vorið 2022, þegar að veðrið býður upp á það.

Þangað til er áætlað að systrunum verði komið fyrir á millistigsbúsvæði sem verður byggt í víkinni. Búsvæðið verður hringlaga laug, um 160 metrar að ummáli, sem nær niður á sjávarbotn.

Í lauginni verður auðvelt fyrir starfsfólk að fylgjast með heilsu mjaldrasystranna og á sama tíma fá þær meira frelsi og aðgang að náttúrunni.