Ríkis­stjórnin er fallin sam­kvæmt nýrri skoðana­könnun sem Prósent fram­kvæmdi fyrir Frétta­blaðið. Stjórnar­flokkarnir mælast með saman­lagt 39,9 prósent og fengju 26 menn kjörna á Al­þingi sam­kvæmt könnuninni en 32 þing­menn þarf til að mynda meiri­hluta.

Stjórnin hefur 38 manna meiri­hluta á þingi í dag, þar af einn sem gekk úr Mið­flokknum og í Sjálf­stæðis­flokkinn eftir kosningar.

Mestu fylgi tapar Sjálf­stæðis­flokkurinn sem mælist nú með 17,9 prósenta fylgi en flokkurinn fékk 24,4 prósent í kosningunum síðasta haust. Flokkurinn tapar rúm­lega sex prósentustigum og tæplega þriðjungi þingsæta sinna.

Fram­sóknar­flokkurinn hefur einnig tapað miklu fylgi en flokkurinn bætti veru­lega við sig fylgi í kosningunum og fékk 17,3 prósent. Hann mælist nú með 12,4 prósenta fylgi.

Vinstri græn, fokkur for­sætis­ráð­herra, tapar hátt í fjórðungi síns fylgis frá kosningum og mælist með 9,6 prósenta fylgi.

Bæði Píratar og Sam­fylking bæta við sig um sjö prósentustigum hvor frá kosningum. Sam­fylking mælist nú með 16,8 prósenta fylgi en fékk 9,9 prósent í kosningunum. Píratar mælast með 16,2 prósent en fengu 8,8 prósent í kosningunum. Við­reisn bætir við sig um einu og hálfu prósentustigi. Fer úr 8,3 prósentum í 9,6 prósent og er með jafn mikið fylgi og Vinstri græn.

Flokkur fólksins og Mið­flokkur tapa hins vegar fylgi. Flokkur fólksins missir einn mann sam­kvæmt könnuninni og Mið­flokkurinn fengi 4,1 prósent og dytti út af þingi.

Sósíal­istar fengi hins vegar 5,4 prósent og þrjá menn kjörna á þing ef gengið yrði til þing­kosninga nú.

Fjöldi þingsæta hvers flokks

*Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins bætti við sig einum manni frá Miðflokki að kosningum loknum.

Könnunin var fram­kvæmd frá 13. til 26. apríl. Um net­könnun meðal könnunar­hóps Prósents var að ræða. Úr­takið var 3.500 manns og var svar­hlut­fallið 50,3 prósent.

Fréttin hefur verið uppfærð.