Ný deilihjólaleiga leit dagsins ljós í Reykjavík í dag og ættu hjólalausir borgarbúar nú að geta hjólað að vild. „Hundrað Donkey deilihjól bættust í samgönguflóru borgarinnar í dag,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á Facebook í dag en frítt er að nýta sér hjólin fyrstu vikuna.

Deilihjólaleigan Donkey Republic er danskt fyrirtæki sem starfrækir nú þegar deilihjólaleigur í þrettán löndum, meðal annars, Danmörku, Þýskalandi, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum. Tilgangur deilihjólaleigunnar er að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins jafnt sem ferðamönnum tímabundinn aðgang að reiðhjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna. Hjóleigan er opin allan sólarhringinn.

Hjól í öllum veðrum

„Ég vona svo sannarlega að hjólaleigan sé komin til að vera svo íbúar og ferðamenn geti valið að ferðast með umhverfisvænni hætti en á fólksbílum. Og já - fólk hjólar líka í rigningu eins og í dag. Pís of keik,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Reykjavíkur, á Facebook síðu sinni.

Sex hjólastöðvar verða staðsettar í miðborginni til að byrja með allar nálægt biðstöðvum Strætó. Gangi framtakið vel munu fleiri hjólastöðvar verða settar á laggirnar. Fyrsta stöðin var opnuð hjá Hlemmi í morgun.

Borgarfulltrúar REykjavíkur flykkjast til að prufukeyra hjólin en hér má sjá Líf Magneudóttur, hæstánægða með sitt eintak.
Mynd/Facebook

Ekkert kolefnisspor

„Vonandi verður þetta til þess að fjölbreyttir samgöngumátar festi sig varanlega í sessi. Og svo eru skilaboðin ekki af verri endanum þegar þú skilar hjólinu aftur: CO2 útblástur þinn var enginn,“ segir Líf, sem var viðstödd við opnun hjólaleigunnar í morgun.

Borgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartoszek, lét sig heldur ekki vanta á opnunina og er þegar búin að nýta sér hjól til að komast til vinnu. „Við í borginn erum búin að samþykkja reglur um svona minni-farartækja-leigur. Áhuginn er mikill, fjölmörg fyrirtæki spyrja og mörg þeirra munu koma. Sem Viðreisnarmaður og grænn markaðssinni gleðst ég að sjá hvernig markaðurinn muni finna nýjar, hagkvæmari leiðir, til að flytja okkur á milli staða í Reykjavík,“ segir Pawel í Facebook færslu.

Dagur B. Hvetur borgarbúa til að nýta sér þessa nýju viðbót og ítrekar að áskrift á hjólunum tryggi ókeypis klukkustundarferð í hvert sinn sem hjólið er leigt. „Um að gera að prófa.“

Pawel Bartoszek nýtti sér deilihjól til að komast til vinnu í dag.
Mynd/Facebook