„Þessum hlýja kafla er líklegast að ljúka og við erum að færast í svona eðlilegri hitatölur núna eftir helgi en hafa verið. Ég var að skoða hversu oft hefur verið hvítt á aðfangadag eða á jóladag, sem flokkast undir hvít jól. Í Reykjavík er það í raun í fimmtíu prósent tilvika sem er snjór. Það er ekki meira. Á Akureyri eru líkurnar áttatíu prósent. Ef þú ætlar að spila á líkurnar þá er það líklegra þar,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur en hún var gestur í Fréttavaktinni í kvöld ásamt Grími Atlasyni framkvæmdastjóra. Fréttir vikunnar voru meðal annars ræddar í þættinum.

Kjaramálin hafa verið áberandi í vikunni og hófst fundur hjá ríkissáttasemjara klukkan eitt í dag.

„Það skiptir miklu máli að hér sé samið og mín sýn er auðvitað að við ættum að einbeita okkur að því að fólk sem hefur hvað lægstar tekjur hér og tekjulægstu hóparnir að þeir ráði för og eigi að ráða för í þessum samningum. Við hin eigum að geta beðið,“ segir Grímur aðspurður um kjaramálin en hann segir ekki alveg fulla samstöðu um að semja til skamms tíma líkt og greint hefur verið frá í fréttum í vikunni.

Blaðamaðurinn Birna Dröfn Jónasdóttir fer yfir áhugavert efni í helgarblaði Fréttablaðsins sem kemur út á morgun. Blaðið er stútfullt af frábæru efni.

Síðar í þættinum hittir Helgi Jónsson, fréttaritari á Norðurlandi, feðginin Alfreð Birgisson og Önnu Maríu Alfreðsdóttur á Akureyri. Þau stunda bogfimi saman og hlutu verðlaunin íþróttafólk ársins hjá Bogfimisambandi Íslands árið 2022. Það er í fyrsta skipti sem Akureyringar hljóta þennan titil og ekki síður í fyrsta skipti sem feðgin afreka það.

Þáttinn í heild sinni má sjá hér að neðan.