Logi Már Einarsson, sem tilkynnir í helgarviðtali Fréttablaðsins að hann ætli að hætta formennsku í flokknum fyrir landsfundinn í haust, segir augljóst hvernig formann flokkinn vanti. „Öðruvísi mann en mig,“ svarar hann sposkur að bragði.

Hans hlutverk hafi verið að halda flokknum á floti við mjög flóknar aðstæður, efla samheldni innan flokksins, þétta raðir og hlúa að vináttu.

„Og ég held að mér hafi að mörgu leyti tekist að halda sjó ásamt því góða fólki sem hefur verið með mér í forystu flokksins.“

Hann segir að Samfylkingin þurfi á næstu árum að hafa formann í brúnni sem hafi óbilandi trú á sjálfum sér, „en það hef ég nú ekki alltaf haft,“ bætir hann við, ærlegur, enn sem fyrr.

„Mundu,“ segir hann, „að ég sóttist ekki eftir formennskunni, en fékk hana í fangið. Og þótt ég sé óhræddur og vanur við að takast á við flókin og erfið verkefni er ég ekki endilega viss um að mér hafi verið ætlað að halda lengi um valdataumana í flokknum.“

En hann hafi vissulega notið þessa tíma sem er orðinn hálft sjötta ár og gott betur.

„Hann hefur gefið mér tækifæri til að vera í miklum samskiptum við fólk af öllu tagi. Það er súrefnið sem ég þarf. Það er súrefnið sem ég hef alltaf þurft. Og þótt ég geti nú alveg þrifist í samneyti við sjálfan mig og einveruna þá eflist ég miklu fremur við það að vera innan um sterkt og afgerandi fólk, jafnt í Samfylkingunni og öðrum flokkum. Það er svo nærandi að geta notið sín í breiðum hópi fólks sem hefur ólíkar skoðanir. Og formennskan hefur heldur betur veitt mér það tækifæri.“

Fátt segir hann einmitt mikilvægara í pólitík en að virða skoðanir annarra.

„Umburðarlyndi er svo mikilvægt, það hefur alla ævina verið að kenna mér eitthvað nýtt – og án þess væri lífið, held ég, óbærilegt.“

Gott og vel, hefur spyrillinn næst á orði, fyrst flokkinn vanti öðruvísi formann, þá liggi beinast við að spyrja, hvern?

„Það er ekki mitt að segja það,“ og Loga er bent á að láta ekki svona. „Jæja,“ svarar hann strax og kveðst sjá tvo til þrjá einstaklinga innan flokksins sem geti gert góða hluti. Og hverjir eru það, er hann spurður að bragði. „Er það ekki nokkuð augljóst,“ og nú birtist gamla Norðurbyggðarglottið á vörum hans sem hefur blessunarlega aldrei elst af honum.