„Það er ekki hægt að segja annað en að það sé komin ný bylgja,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við Fréttablaðið.

Fjöru­tíu og fjögur já­kvæð CO­VID-19 smit greindust í gær. Þar af greindust 38 manns já­kvæðir innan­lands síðasta sólar­hringinn og 6 greindust já­kvæðir við landa­mærin. Af þeim sem greindust í gær voru níu í sótt­kví við greiningu. 163 eru nú í ein­angrun og 454 í sótt­kví.

Þórólfur segir að flestir sem hafi smitast séu fullbólusettir eða bólusettir að hluta. Ekki er um að ræða alvarleg veikindi. Einkennin eru hefðbundin, hálssærindi, beinverkir, niðurgangur og uppköst. Þá er dæmi um að fólk hafi leitað á Covid-göngudeildina.

Þessi fjöldi smita, skiptir hann máli?

„Já, hann skiptir máli. Ástæðan er sú að þó að við vitum ekki nákvæmlega hversu vel bólusetningin ver einstaklinga fyrir alvarlegum einkennum. Það er talað um allt að 90 prósent virkni gagnvart alvarlegum einkennum, samt sem áður, ef við fáum mikla útbreiðslu þá getum við fengið marga sem eru með alvarleg einkenni. Þeir væru miklu fleiri ef það væri ekki bólusetning í gangi, en við getum ekki fengið hóp af alvarlega veiku fólki sem þarf að leggjast inn á sjúkrahús, en við höfum ekki séð það enn þá.“

Dreifing leiðir til smita hjá eldri aldurshópum

Hópurinn er að greinast er að stærstum hluta á aldrinum 20 til 40 ára, meðal aldurinn er um þrítugt. „Þetta er tiltölulega ungt fólk sem þolir sýkinguna betur en aðrir. Það endurspeglast af því að þetta er hópurinn sem er mest á ferðinni og hópast mest saman, hann er mest útsettur fyrir smiti. Ef við fáum mikla dreifingu í samfélaginu þá líður ekki langur tími þangað til við fáum smit í eldri aldurshópa. Þannig er það bara.“

Búið er að breyta áherslum smitrakningarteymisins í samræmi við hlutfall bólusetninga. Dæmi er um að fullbólusettur einstaklingur sem fékk að vita af smiti í gær hafi ekki þurft að greina frá ferðum sínum lengra aftur í tímann en sólarhring. „Við gerum ekki lengur jafn miklar kröfur til þeirra sem eru bólusettir, þetta fer allt eftir aðstæðum.“

Óvíst um vernd bóluefna hjá viðkvæmum hópum

Með allan þennan fjölda sem er bólusettur, er Covid-smit ennþá alvarlegra en smit af venjulegri flensu?

„Við erum að renna svolítið blint í sjóinn, við getum sagt ýmislegt sem við vitum um flensuna en varðandi Covid þá vitum við ekki nákvæmlega hver staðan er, í hverju við lendum. Það er það sem að við erum að vinna fram í tímann, varðandi Covid. Á hverjum vetri þá smitast kannski 15 prósent af þjóðinni af inflúensu. Það eru ekki fleiri, ástæðan er að fólk er bólusett og hefur fengið alls konar flensu áður og er varið. Með Covid er þetta allt öðruvísi, þetta er algjörlega ný veira og getur smitað allt samfélagið. Þó að alvarlegar afleiðingar Covid, hlutfallslega, séu kannski ekki meiri en af venjulegri flensu, en ef við fáum smit í allt samfélagið þá fáum við svo svakalegan fjölda sem getur fengið alvarlegar afleiðingar. Það er það sem menn þurfa að gera sér grein fyrir þegar verið er að bera saman venjulega flensu og Covid,“ segir Þórólfur.

„Svo vitum við ekki hversu vel bólusetningin verndar viðkvæma hópa. Munu þeir fá einhverja vernd af bóluefninu? Við höfum ekki góðar rannsóknir sem segja af eða á. Þessar rannsóknir sem liggja fyrir um 90 prósent vernd, þá er það aðallega hjá hraustu fólki.“

Eru komin drög að nýju minnisblaði?

„Ég er alltaf með einhverjar tillögur í höfðinu, annað hvort um tilslakanir eða hertari aðgerðir. Ég er vissulega að hugsa núna um að leggja til hertari aðgerðir við ráðherra en það er ekki komið á neitt formlegt stig.“