Væntan­­leg eru til landsins nýjar gerðir bólu­efna frá Pfizer/BioN­Tech og Moderna gegn Co­vid-19 sem sér­­hönnuð eru gegn Ó­­míkron-af­brigði veirunnar. Þetta kemur fram í til­kynningu frá em­bætti land­læknis. Sótt­varna­læknir hefur gefið út leið­beiningar um notkun bólu­efna frá 15. septem­ber.

Sam­kvæmt af­hendingar­á­ætlunum er gert er ráð fyrir þau að taki við af eldri bólu­efnum fyrir allar örvunar­bólu­setningar tólf ára og eldri fyrir lok árs. Upp­runa­legu bólu­efnin verða á­fram nýtt til grunn­bólu­setningar þar sem enn hefur ekki verið stað­fest að nýju bólu­efnin séu jafn­virk og eldri til þess.

Mælt verður með að inflúensu­bólu­efni og Co­vid-19 bólu­efni verði gefin á­hættu­hópum sam­hliða ef í það minnsta fjórir mánuðir eru liðnir frá síðustu Co­vid-bólu­setningu.

Á­hættu­hópar sem eru í for­gangi fyrir bæði in­flúensu- og CO­VID-19 bólu­setningar eru:

  • Allir ein­staklingar 60 ára og eldri
  • Öll börn og full­orðin sem þjást af lang­vinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrar­sjúk­dómum, sykur­sýki, ill­kynja sjúk­dómum og öðrum ó­næmis­bælandi sjúk­dómum
  • Barns­hafandi konur
  • Heil­brigðis­starfs­menn sem annast ein­stak­linga í á­hættu­hópum sem taldir eru upp hér að ofan

Í síðustu viku var greint frá því að 60 ára og eldri fengju brátt boð í fjórðu bólu­setningu gegn Co­vid-19. Þau sem eru í hættu á al­var­legum veikindum vegna Co­vid-smits fá einnig boð og mælt yrði með örvun­ar­bólu­­setn­ingu fyr­ir heil­brigðis­­starfs­­menn ef lengra er liðið en sex mánuðir frá síðustu sprautu.