Straumhvörf kunna brátt að verða á þeim byggðasvæðum sem hafa ekki aðgang að heitu vatni til húshitunar, en íslenska verkfræðifyrirtækið Arctus aluminum og Tæknisetur (áður Nýsköpunarmiðstöð Íslands) taka nú þátt í umfangsmiklu evrópsku rannsóknarverkefni sem byggir á sjálfbærri nýtingu áls sem orkugjafa til húshitunar.
Verkefnið hlaut nýlega verulegan fjárstyrk frá Rannsóknasjóði Evrópusambandsins og Tækniþróunarsjóði Sviss og nemur hann hálfum milljarði króna, en auk Íslands koma stofnanir og fyrirtæki frá Hollandi, Noregi, Slóveníu, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi að verkefninu.
„Eiginleikar álsins skipta hér sköpum,“ segir Jón Hjaltalín Magnússon verkfræðingur, sem stofnaði Arctus aluminum fyrir hálfum öðrum áratug, en hann segir þennan kunna málm geta safnað í sig sérlega miklum hita.
Þróunarvinna hans og samstarfsaðila gengur út á það að búa til nokkurs konar orkugeymslur þar sem álið er hitað, en þaðan er heitt loft flutt á milli staða og er tengt við hitaleiðslur eða ofnakerfi.
„Við höfum prufukeyrt þessa aðferð og hún gengur upp,“ bætir Jón Hjaltalín við, en hann segir hana vera einstaklega umhverfisvæna.

„Eiginleikar álsins skipta hér sköpum“
„Það sem er hvað áhugaverðast við aðferðina er hvað hún er endurnýjanleg,“ segir Jón Hjaltalín og útskýrir enn frekar. „Þegar vatn er sett yfir álið hvarfast það í hita og vetni og breytist við það aftur í súrál sem er svo hringrásað til álversins til að framleiða aftur nýtt ál. Sjálfbærnin verður varla augljósari,“ segir Jón Hjaltalín og bendir á að framlag Íslands til þessa verkefnis sé einkum fólgið í kolefnislausri framleiðslu á álinu, svo og endurvinnslu súrálsins sem verður til í hitaveitunum þegar álið losar orkuna.
Hann segir að orkugeymslur sem hita upp álið með fyrrgreindum hætti geti séð heilu bæjarfélögunum fyrir húshitun og muni, ef allt gangi að óskum, nýtast sérstaklega vel á þeim köldu svæðum þar sem íbúar þurfa ýmist að nota rafmagn eða olíu til að hita hús sín, eða eftir atvikum kol eða annan eldivið á meginlandi Evrópu og víðar um álfur.
„Þróunarvinnan lofar mjög góðu, en samvinna er þar lykilatriði,“ segir Jón Hjaltalín og nefnir til sögunnar dr. Guðmund Gunnarsson og dr. Guðbjörgu Óskarsdóttur hjá Tæknisetri „en aðkoma þeirra hefur skipt sköpum um að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika með því að sýna fram á virkni hennar á tilraunastofu setursins,“ segir Jón Hjaltalín Magnússon.