Straum­hvörf kunna brátt að verða á þeim byggða­svæðum sem hafa ekki að­gang að heitu vatni til hús­hitunar, en ís­lenska verk­fræði­fyrir­tækið Arctus aluminum og Tækni­setur (áður Ný­sköpunar­mið­stöð Ís­lands) taka nú þátt í um­fangs­miklu evrópsku rann­sóknar­verk­efni sem byggir á sjálf­bærri nýtingu áls sem orku­gjafa til hús­hitunar.

Verk­efnið hlaut ný­lega veru­legan fjár­styrk frá Rann­sókna­sjóði Evrópu­sam­bandsins og Tækni­þróunar­sjóði Sviss og nemur hann hálfum milljarði króna, en auk Ís­lands koma stofnanir og fyrir­tæki frá Hollandi, Noregi, Slóveníu, Sviss, Tékk­landi og Þýska­landi að verk­efninu.

„Eigin­leikar álsins skipta hér sköpum,“ segir Jón Hjalta­lín Magnús­son verk­fræðingur, sem stofnaði Arctus aluminum fyrir hálfum öðrum ára­tug, en hann segir þennan kunna málm geta safnað í sig sér­lega miklum hita.

Þróunar­vinna hans og sam­starfs­aðila gengur út á það að búa til nokkurs konar orku­geymslur þar sem álið er hitað, en þaðan er heitt loft flutt á milli staða og er tengt við hita­leiðslur eða ofna­kerfi.

„Við höfum prufu­keyrt þessa að­ferð og hún gengur upp,“ bætir Jón Hjalta­lín við, en hann segir hana vera ein­stak­lega um­hverfis­væna.

Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og stofnandi Arctus aluminium, segir málminn geta safnað í sig sérlega miklum hita.
Mynd/Arctus

„Það sem er hvað á­huga­verðast við að­ferðina er hvað hún er endur­nýjan­leg,“ segir Jón Hjalta­lín og út­skýrir enn frekar. „Þegar vatn er sett yfir álið hvarfast það í hita og vetni og breytist við það aftur í súrál sem er svo hring­rásað til ál­versins til að fram­leiða aftur nýtt ál. Sjálf­bærnin verður varla aug­ljósari,“ segir Jón Hjalta­lín og bendir á að fram­lag Ís­lands til þessa verk­efnis sé einkum fólgið í kol­efnis­lausri fram­leiðslu á álinu, svo og endur­vinnslu súrálsins sem verður til í hita­veitunum þegar álið losar orkuna.

Hann segir að orku­geymslur sem hita upp álið með fyrr­greindum hætti geti séð heilu bæjar­fé­lögunum fyrir hús­hitun og muni, ef allt gangi að óskum, nýtast sér­stak­lega vel á þeim köldu svæðum þar sem í­búar þurfa ýmist að nota raf­magn eða olíu til að hita hús sín, eða eftir at­vikum kol eða annan eldi­við á megin­landi Evrópu og víðar um álfur.

„Þróunar­vinnan lofar mjög góðu, en sam­vinna er þar lykil­at­riði,“ segir Jón Hjalta­lín og nefnir til sögunnar dr. Guð­mund Gunnars­son og dr. Guð­björgu Óskars­dóttur hjá Tækni­setri „en að­koma þeirra hefur skipt sköpum um að þessi hug­mynd hafi orðið að veru­leika með því að sýna fram á virkni hennar á til­rauna­stofu setursins,“ segir Jón Hjalta­lín Magnús­son.