„Það er kominn niður­staða í þetta og það er þannig að minn um­bjóðandi vann sitt mál og er laus úr Þórunnar­túni,“ segir Jón Magnús­son, lög­maður konu sem hefur dvalið í far­sóttar­húsi á­samt dóttur sinni síðustu daga.

Héraðs­dómur Reykja­víkur úr­skurðaði í dag í þremur málum er snúa að lög­mæti þess að skylda komu­far­þega frá á­hættu­svæðum í far­sóttar­hús. Að sögn Jóns er það niðurstaða dómara að vistunin sé ó­lög­mæt í öllum þremur málunum.

„Minn um­bjóðandi lýsir því yfir að hún sætti sig við að hlýta sótt­kví í heimahúsi og sæta öllum þeim reglum sem gilda um það. Niður­staða dómsins er sú að miðað við þær að­stæður hafi ekki verið heimilt að vista hana í sótt­varna­húsi,“ segir Jón í sam­tali við Frétta­blaðið.

Jón getur þó lítið tjáð sig um forsendur þessarar niðurstöðu héraðsdóms. „Ég er rétt ný­búinn að fá dóminn og get ó­skap­lega lítið farið yfir niður­stöðuna annað en það að niður­staðan er sú að það er ekki heimilt að vista við­komandi í sér­stöku sótt­varnar­húsi þar sem hún á mögu­leika á að taka út sótt­kvínna annars staðar og hefur lýst því yfir að hún muni virða reglur um sótt­kví,“ segir Jón sem var ný­kominn úr héraðs­dómi þegar Fréttablaðið hafði samband.

Spurður um hvað verður um konuna núna segist Jón vera á leiðinni til hennar. „Núna er ég bara á leiðinni til þess að losa hana út, eða öllu heldur er sonur minn á leiðinni að gera það,“ segir Jón léttur í bragði eftir tíðindi dagsins.