Krakkarnir í Síðuskóla á Akureyri fengu að ráða götuheitunum í nýju Móahverfi á Akureyri. Ein gatan mun fá heitið Berjamói.

Hverfið, sem hafði framan af vinnuheitið Kollugerðishagi, er íbúðahverfi vestan Borgarbrautar í Síðuhverfi. Í hverfinu er gert ráð fyrir 1.100 íbúðum, íþróttasvæði og grænum svæðum.

Í desember tilkynnti skipulagsráð Akureyrar að það fengi heitið Móahverfi. Jafnframt að leitað yrði eftir tillögum að götuheitum frá nemendum Síðuskóla.

Nú liggja tillögurnar fyrir og hafa 22 þeirra verið samþykktar í skipulagsráði. Meðal þeirra eru Berjamói, Gullmói, Mýrarmói, Stjörnumói og Silfurmói.