Mannanafnanefnd hefur nú samþykkt nafnið Ármúla sem millinafn. Erindi vegna nafnsins barst nefndinni um miðjan september og úrskurðaði hún loks í málinu á þriðjudaginn var.

Á vef Stjórnarráðs Íslands segir að millinafnið Ármúla sé dregið af íslenskum orðstofni. Það hafi ekki nefnifallsendingu og ekki unnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna.

Þá er nafnið heldur ekki ættarnafn í skilningi laga um mannanöfn. Nafnið Ármúla uppfyllir því skilyrði laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Ármúla var þó ekki eina nafnið sem samþykkt var á fundi nefndarinnar á þriðjudag.

Eiginnöfnin Hunter, Ói, Kristóbert, Skúa , Gjóska, Drómi og Úrsúluey voru einnig á meðal samþykktra nafna ásamt fleiri nöfnum.

Þó að nefndin hafi samþykkt flest nöfnin sem borin voru upp á fundinum, hafnaði hún einnig nokkrum nöfnum, sem dæmi millinöfnunum Thunderbird og Street.