Skógarböðin eru heiti á nýjasta baðlóni landsmanna, en þau voru opnuð um síðustu helgi í skógarjaðrinum fyrir botni Eyjafjarðar, þar sem þjóðvegurinn liggur út með Vaðlaheiði.

„Viðtökurnar hafa verið framar vonum,“ segir Tinna Jóhannsdóttir staðarhaldari og segir gesti baðanna upplifa það svo sem þeir hverfi um stund inn í náttúruna, enda lykur skógur um böðin á þrjá vegu „með fuglasöng og fossanið“, útskýrir Tinna og minnist líka á útsýnið „þar sem Súlur rísa eins og höfuðdjásn í vestri“.

Skógarböðin eru í landi Ytri-Varðgjár í hlíðarfæti Vaðlaheiðar og eru til komin vegna hitavatnsæðar sem opnaðist við gröftinn á Vaðlaheiðargöngum fyrir réttum sjö árum og gerði það að verkum um tíma að óvinnufært var inni í þeim sakir hita og kófs.

Það voru svo akureyrsku hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hanner sem fengu þá flugu í höfuðið fyrir tveimur árum að nota vatnið úr göngunum í baðlón skammt þar frá sem heitavatnið fossar úr heiðinni og hófust framkvæmdir í ágúst í fyrra „og gekk verkið hratt og smurt fyrir sig“, segir Tinna og tekur fram að hún sé aðflutt að sunnan.

Skógarböðin geta tekið á móti 204 gestum í senn, en þau skiptast í tvær heitar laugar, samtals 600 fermetra að flatarmáli, en auk þess er kaldur pottur og sána á staðnum. Sjálft baðhúsið er sömuleiðis 600 fermetrar að stærð og þar er veitingastaður og bar sem býður upp á létta rétti.

„Svo er þyrlupallur norðan við húsin,“ tekur Tinna fram og býst við fjölda útlendinga í böðin á næstu árum, „en líklega verða Íslendingarnir fleiri fyrsta sumarið,“ bætir hún við og segir heimamenn einkar áhugasama um baðstaðinn.

Skógarböðin fyrir botni Eyjafjarðar eru komin í hóp að minnsta kosti tíu jarðbaða af sama tagi, en eftir að Bláa Lónið var opnað á Reykjanesskaga árið 1992 hefur fjöldi álíka baðstaða komið til sögunnar og má nefna Krauma í Borgarfirði, Giljaböðin í Húsafelli, Jarðböðin við Mývatn, Sjóböðin á Húsavík, Vök við Egilsstaði, Gömlu laugina á Flúðum, Fontana á Laugarvatni, Sky Lagoon í Kópavogi – og loks núna Skógarböðin í Eyjafirði.

Tinna Jóhannsdóttir, staðarhaldari í Skógarböðunum.
Mynd/aðsend