Rétt rúmlega helmingur hjúkrunarfræðinga felldi samninginn sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerði við ríkið þann 10. apríl síðastliðinn. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, sagðist hafa fundið fyrir því þegar samningurinn var kynntur að það gæti verið mjótt á mununum.

Aðspurð hvort niðurstöðurnar komi á óvart segist Guðbjörg ekki hafa vitað fyrir fram hvernig myndi fara.

„Við heyrðum vissa neikvæðni varðandi launaliðinn fyrst og fremst en við vissum ekki að hann yrði felldur. Þetta var bara í höndum félagsmanna. Við töldum okkur vera með samning sem væri bara góður og eins og staðan væri í dag. Að sjálfsögðu kynntum við hann fyrir félagsmönnum en fundum mikla neikvæðni í byrjun sem sneri að launaliðnum sem við sátum yfir hvað lengst.“

Byrja upp á nýtt

Búið er að tilkynna formanni Samninganefndar ríkisins og ríkissáttasemjara um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Guðbjörg segir að nú byrji allt á núlli.

„Nú þarf bara að skoða þetta upp á nýtt. Boltinn er nú hjá Aðalsteini Leifssyni ríkissáttasemjara sem leiddi okkur og samninganefnd ríkisins á síðustu metrunum.“

Samningsviðræður hafa nú staðið yfir í rúmt ár. Guðbjörg segist ekki finna fyrir aukinni pressu þrátt fyrir aðstæður í samfélaginu

„Maður tekur þessu bara af æðruleysi. Þetta er skoðun félagsmanna og það voru 80 prósent sem kusu. Þetta er bara eins og hvert annað verkefni. Ég tek þessu ekki persónulega og við skoðum þetta bara undir leiðsögn ríkissáttasemjara.“