Af 5.469 manns sem biðu skurðaðgerðar á Landspítalanum í byrjun febrúar biðu 1.218 liðskipta og biðtíminn hjá þeim er hálft ár. Sem fyrr segist Klíníkin geta gert fleiri slíkar aðgerðir en ríkið sé áhugalaust. Bið eftir liðskiptaaðgerðum hjá Landspítalanum er nú sex til sjö mánuðir eftir að fólk er komið inn á biðlista spítalans sjálfs. Alls eru nú 1.218 manns á lista spítalans yfir þá sem bíða eftir liðskiptum á mjöðm og hné.
Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skurðlækningaþjónustu Landspítalans, segir að á meðan starfsemi hafi verið skert á skurðstofum vegna COVID-19 í fyrra hafi verið unnið að því að ná niður biðlista á göngudeild bæklunarskurðlækna.

„Það er bið eftir mati skurðlæknis sem endar oft með því að sjúklingur er settur á biðlista og undirbúning fyrir skurðaðgerð. Þessi bið hefur farið úr um átta mánuðum í um þrjá mánuði. Með þessu átaki þá komu sjúklingar hraðar inn á biðlistann á síðasta ári og það skýrir að hluta fjölgun á biðlista eftir liðskiptum 2020,“ útskýrir Margrét.
Að sögn Margrétar er meðalbiðtími þeirra sem núna eru á bið eftir liðskiptum á mjöðm 6,2 mánuðir og sjö mánuðir eftir liðskiptum á hné. Í ársbyrjun 2016 hafi um 870 manns verið á biðlistanum og meðalbiðtíminn þá var níu til tíu mánuðir.
Í upphafi árs 2020 segir Margrét að 728 manns hafi verið á bið og biðtíminn um sex mánuðir. Í ársbyrjun 2021 hafi 1.100 manns beðið eftir liðskiptum sem skýrist meðal annars af því að um 250 hafi bæst við vegna átaks á göngudeild í að stytta bið þar.
Ríkið ekki sýnt áhuga á samningum
Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir hjá Klínikinni Ármúla, segir fyrirtækið vel í stakk búið til að gera fleiri liðskiptaaðgerðir í ár en í fyrra, sérstaklega ef samið yrði við Sjúkratryggingar Íslands. Ríkið hafi hins vegar ekki sýnt því áhuga og greiða því allir sem fara í liðskiptaaðgerð hjá Klíníkinni áfram úr eigin vasa.
Við höfum ekki fengið svar
„Það var útboð hjá Sjúkratryggingum á sérfræðiþjónustu í október síðastliðnum. Við lýstum áhuga á að ganga til viðræðna varðandi liðskiptaaðgerðir og við höfum ekki fengið svar,“ segir Hjálmar. Þrátt fyrir níu vikna aðgerðastopp segir Hjálmar að Klíníkin hafi gert 178 liðskiptaaðgerðir árið 2020, miðað við 153 aðgerðir 2019.
„Við lentum eins og aðrir í þessu þriggja vikna stoppi nýverið og við erum búin að vinna þann lista í burtu. Miðað við taktinn sem við erum að gera aðgerðir þá væri þetta um 240 til 260 aðgerðir á venjulegu ári og það væri hægt að gera enn fleiri ef ósk væri um slíkt.“