Af  5.469 manns sem biðu skurð­að­gerðar á Land­spítalanum í byrjun febrúar biðu 1.218 lið­skipta og bið­tíminn hjá þeim er hálft ár. Sem fyrr segist Klíníkin geta gert fleiri slíkar að­gerðir en ríkið sé á­huga­laust. Bið eftir lið­skipta­að­gerðum hjá Land­spítalanum er nú sex til sjö mánuðir eftir að fólk er komið inn á bið­lista spítalans sjálfs. Alls eru nú 1.218 manns á lista spítalans yfir þá sem bíða eftir lið­skiptum á mjöðm og hné.

Margrét Guð­jóns­dóttir, for­stöðu­maður skurð­lækninga­þjónustu Land­spítalans, segir að á meðan starf­semi hafi verið skert á skurð­stofum vegna CO­VID-19 í fyrra hafi verið unnið að því að ná niður bið­lista á göngu­deild bæklunar­skurð­lækna.

Margrét Guð­jóns­dóttir, for­stöðu­maður skurð­lækninga­þjónustu Land­spítalans.
Mynd/Aðsend

„Það er bið eftir mati skurð­læknis sem endar oft með því að sjúk­lingur er settur á bið­lista og undir­búning fyrir skurð­að­gerð. Þessi bið hefur farið úr um átta mánuðum í um þrjá mánuði. Með þessu á­taki þá komu sjúk­lingar hraðar inn á bið­listann á síðasta ári og það skýrir að hluta fjölgun á bið­lista eftir lið­skiptum 2020,“ út­skýrir Margrét.

Að sögn Margrétar er meðal­bið­tími þeirra sem núna eru á bið eftir lið­skiptum á mjöðm 6,2 mánuðir og sjö mánuðir eftir lið­skiptum á hné. Í árs­byrjun 2016 hafi um 870 manns verið á bið­listanum og meðal­bið­tíminn þá var níu til tíu mánuðir.

Í upp­hafi árs 2020 segir Margrét að 728 manns hafi verið á bið og bið­tíminn um sex mánuðir. Í árs­byrjun 2021 hafi 1.100 manns beðið eftir lið­skiptum sem skýrist meðal annars af því að um 250 hafi bæst við vegna á­taks á göngu­deild í að stytta bið þar.

Ríkið ekki sýnt áhuga á samningum

Hjálmar Þor­steins­son, bæklunar­skurð­læknir hjá Klínikinni Ár­múla, segir fyrir­tækið vel í stakk búið til að gera fleiri lið­skipta­að­gerðir í ár en í fyrra, sér­stak­lega ef samið yrði við Sjúkra­tryggingar Ís­lands. Ríkið hafi hins vegar ekki sýnt því á­huga og greiða því allir sem fara í lið­skipta­að­gerð hjá Klíníkinni á­fram úr eigin vasa.

„Það var út­boð hjá Sjúkra­tryggingum á sér­fræði­þjónustu í októ­ber síðast­liðnum. Við lýstum á­huga á að ganga til við­ræðna varðandi lið­skipta­að­gerðir og við höfum ekki fengið svar,“ segir Hjálmar. Þrátt fyrir níu vikna að­gerða­stopp segir Hjálmar að Klíníkin hafi gert 178 lið­skipta­að­gerðir árið 2020, miðað við 153 að­gerðir 2019.

„Við lentum eins og aðrir í þessu þriggja vikna stoppi ný­verið og við erum búin að vinna þann lista í burtu. Miðað við taktinn sem við erum að gera að­gerðir þá væri þetta um 240 til 260 að­gerðir á venju­legu ári og það væri hægt að gera enn fleiri ef ósk væri um slíkt.“