Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn voru bjartsýnir í upphafi formlegra meirihlutaviðræðna. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi oddvita flokkanna rétt í þessu.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, opnaði fundinn. Hann sagði samtöl oddvitanna hafa verið góð. „Við í Framsókn höfum átt samtal við okkar bakland, njótum fulls trausts og höfum umboð til að ganga til þessara viðræðna.“
Þá sögðust Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, öll vera bjartsýn á að viðræðurnar myndu ganga vel. Þórdís segir málefnanlegan þéttleika með hópnum.
Framsókn að taka af skarið
Hópurinn bauð blaðamönnum að spyrja spurninga að tölu lokinni. Þau voru meðal annars spurð að því hvers vegna þau væru að boða til blaðamannafundar í upphafi formlegra viðræðna.
Svaraði Einar því að sér hefði þótt mikilvægt að fjölmiðlar fengu tækifæri til að spyrja spurninga. „Það hefur verið skorað á okkur Framsóknarfólk að taka af skarið. Við erum að gera það. Ég sé samhljóm milli þessara flokka.“
Segir hina flokkana reiðubúna í breytingar
Þá voru oddvitar hinna flokkanna, sem allir voru áður í meirihluta, spurðir að því hvort að þeir væru reiðubúnir til að gangast við breytingum líkt og Framsókn hefði rætt um.
Svaraði Þórdís Lóa því að það væri á hreinu. „Við höfum verið mjög skýr með það, að nú er nýtt upphaf og nýtt kjörtímabil að hefjast. Þetta er nýjar meirihlutaviðræður sem við erum að fara í, við erum til í breytingar og til í að tala saman um framtíðarsýn þessarar borgar.“
Svöruðu litlu um borgarstjórarstólinn
Þá var Dagur B. spurður hvort til greina kæmi að hann yrði ekki borgarstjóri á nýju kjörtímabili. „Ég hef ítrekað sagt að ég hef ekki gengið til þesssara viðræðna með neina úrslitakosti. Við höfum líka sammælst um að núna förum við í það að ræða málefnin og ræða verkaskiptinguna í lokin.“
Einar Þorsteinsson var spurður að því hvort sér finndist réttlætanlegt að hann yrði borgarstjóri, hafandi enga reynslu af því að sitja í borgarstjórn.
„Þetta er góð spurning. Ég held að kjósendur ráði því hver úrslit kosninganna eru. Ég ætla ekkert að úttala mig um það hver eigi að vera borgarstjóri, hvenær eða hvernig það verður. Við leggjum áherslu á málefnin og það ræður för næstu daga.“