Nýr Landspítali ohf. hefur samið við Corpus3 hópinn um fullnaðarhönnun rannsóknarhúss sem verður hluti að nýjum Landspítala við Hringbraut. Samningsundirskrift vegna fullnaðarhönnunar rannsóknahúss í Hringbrautarverkefninu fór fram fyrr í dag. 

Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Stærð hússins er 15.550 m². Kostnaðaráætlun verksins er kr. 670.890.000 og var tilboð Corpus3 kr. 477.286.560 sem er  71,1 prósent af kostnaðaráætlun.

Öll rannsóknarstarfsemi sameinuð á einn stað

Í rannsóknahúsi Nýs Landspítala mun öll rannsóknastarfsemi spítalans sameinast á einn stað. Starfseiningar í rannsóknahúsi verða meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða – og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum og sýkla og veirufræði.  Einnig mun starfsemi Blóðbanka flytjast í nýja rannsóknahúsið.

Rannsóknahúsið tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstökum sjálfvirkum flutningskerfum, einnig með tengigöngum og tengibrúm. Á húsinu verður einnig að finna þyrlupall sem tengdur verður meðferðarkjarnanum.

Aðrar byggingar nýs Landspítala við Hringbraut eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Rannsóknarhúsið verði hjartað við Hringbraut

Svandís segir í tilkynningu að sameining allrar rannsóknastarfsemi Landspítala á einn stað muni gjörbreyta allri umgjörð á rannsóknastarfsemi spítalans. „Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er forgangsmál og nýtt rannsóknahús er þar mikilvægur áfangi“.

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri nýs Landspítala (NLSH) segir að stórum áfanga sé náð við undirskriftina í dag. Nýja rannsóknarhúsið sé ein af meginbyggingum í heildaruppbyggingu nýs Landspítala og það sé áætlað að taka húsið í notkun árið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir í tilkynningu að nýja rannsóknarhúsið verði að mörgu leyti hjartað við Hringbraut.  

„Í rannsóknahúsinu verða þannig allar rannsóknastofur Landspítala, lífsýnasöfn og Blóðbankinn. Þessi starfsemi er í dag á meira en 10 stöðum í borginni. Húsið verður algjör bylting í aðstöðu fyrir starfsfólk og fjölbreyttar vísindarannsóknir og við bíðum eftir því með mikilli eftirvæntingu,“ segir Páll.

Með tilkomu rannsóknahúss verður einn bein tenging við Háskóla Íslands sem mun reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verður tengt rannsóknahúsinu.

Corpus3 samanstendur af eftirtöldum fyrirtækjum: Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf. og VSÓ ráðgjöf.

„Það er ánægjulegt og í senn krefjandi verkefni að hanna nýtt rannsóknahús Landspítala. Við höfum unnið að hönnun nýs meðferðarkjarna í Hringbrautarverkefninu og við nýtum alla þá reynslu og þekkingu sem við höfum aflað okkur í því verkefni við hönnun rannsóknahússins,“ segir Grímur Már Jónasson hjá Corpus3 um samninginn.

Hér að neðan er hægt að sjá kynningarmyndband um rannsóknarhúsið sem framleitt var af Tjarnargötunni fyrir Landspítalann.  

Á heimasíðu Hringbrautarverkefnisins er hægt að fylgjast með fréttum af framkvæmdum.